Fjáraukalög 2003

Þriðjudaginn 07. október 2003, kl. 14:50:02 (237)

2003-10-07 14:50:02# 130. lþ. 5.3 fundur 87. mál: #A fjáraukalög 2003# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 130. lþ.

[14:50]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Ég get ekki sagt að ég viti hvaða skipulag sláturhúsamála sé hentugast og best, og ég leyfi mér að efast um að það sé til eitthvert alhliða svar við spurningunni um þetta. En það sem hér liggur eingöngu fyrir er að það er lagt til að Alþingi veiti 170 millj. kr. fjárveitingu til þess að auka hagkvæmni í þessum atvinnurekstri og greiða fyrir því að þau hús sem eftir verða geti starfað með hagkvæmum hætti og greitt viðskiptavinum sínum, þ.e. bændunum, eðlilegt og réttmætt endurgjald fyrir afurðir þeirra. Það stendur ekkert annað í þessu frv. Og framkvæmdin á þessu að öðru leyti er að sjálfsögðu í höndum landbrh. og ég treysti því að hann muni leysa það verkefni með fullkomlega eðlilegum hætti. Ég sé enga ástæðu til þess að draga það neitt í efa.

Um hitt atriðið er ástæðulaust að fjölyrða. Við erum greinilega bara ósammála um þetta, þingmaðurinn og ég.