Fjáraukalög 2003

Þriðjudaginn 07. október 2003, kl. 15:14:54 (240)

2003-10-07 15:14:54# 130. lþ. 5.3 fundur 87. mál: #A fjáraukalög 2003# frv., SigurjÞ
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 130. lþ.

[15:14]

Sigurjón Þórðarson:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til fjáraukalaga og ég ætla að fjalla um einstaka þætti þeirra. Í þeim er lagt til að veitt verði 170 millj. kr. af opinberu fé til þess að úrelda sláturhús. Er það gert með því fororðinu að um sé að ræða svokallaða hagræðingu í landbúnaði. Það er ákaflega sérkennilegt að sjá hæstv. fjmrh. og sjálfstæðismann standa fyrir 170 millj. kr. fjárframlögum til þess að hagræða í úrvinnslugreinum landbúnaðarins. Ég spyr: Er það í samræmi við stefnu Sjálfstæðisflokksins að ríkið standi með beinum hætti fyrir hagræðingu í atvinnuvegum landsmanna? Ég tel ekkert athugavert við að styrkja byggð eða standa fyrir almennum atriðum til að skjóta styrkum stoðum undir atvinnulífið. En ég dreg í efa að hér sé um raunverulega hagræðingu að ræða. Samkvæmt þessu er ríkisvaldið enn að skipta sér beint af þróun landbúnaðarins og kemur í veg fyrir að eðlileg og sanngjörn markaðslögmál ráði þróun landbúnaðar.

Nú er hæstv. fjmrh. að leggja til að gríðarlega háum fjárhæðum, eins og áður er sagt, verði varið til þess að loka sláturhúsum hringinn í kringum landið en ekki hefur farið fram nein sjálfstæð rannsókn á því hvort að þessum fjármunum sé vel varið. Hefur sú rannsókn farið fram? Nei. Engin rannsókn hefur farið fram.

Nefnd landbrn. sem lagði til úreldinguna byggði útreikninga sína á tveggja ára gamalli skýrslu verkfræðistofunnar VSÓ sem unnin var fyrir Goða hf. Þessi ágæta skýrsla VSÓ fjallar eingöngu um fyrirhugaða hagræðingu í sláturhúsum Goða hf., en Goði slátraði sauðfé í átta sláturhúsum árið 2000. Margir muna eflaust hvernig fór fyrir Goða, en fyrirtækið varð gjaldþrota þrátt fyrir góð áform um mikla hagræðingu sem fylgdi því að sameina rekstur fjölda sláturhúsa.

Helsta niðurstaða skýrslu VSÓ var að hagkvæmast væri að hætta slátrun í öllum átta sláturhúsum Goða og byggja tvö ný sláturhús, annað á Austurlandi og hitt á Vesturlandi. Það sem stendur þó upp úr er að ekki er að sjá að fyrir liggi neinir útreikningar um að þessi sex sláturhús sem ríkisstjórnin hefur valið, eða nefnd landbrn. valdi fyrir ríkisstjórnina, lækki kostnað við slátrun. Öllum má vera ljóst að hæstv. fjmrh. eys fjármagni úr ríkissjóði á mjög hæpnum forsendum. Úrelding sláturhúsa er mjög gamaldags og í raun framsóknarleg aðgerð og í anda miðstýringar. Íslenskur landbúnaður þarf að losna úr klóm miðstýringar ef nást á raunverulegur árangur í að lækka matvælaverð á Íslandi.

Hvaða hagræðing er í að slátra öllu í svokölluðum útflutningssláturhúsum þar sem kostnaður við slátrun er hærri vegna þess að þau þurfa að yfirstíga ýmsar kröfur sem eru í raun ekkert annað viðskiptahindranir? Hvaða hagræðing er í að hætta allri slátrun á Vesturlandi og flytja allt fé norður í land, eins og ríkisstjórnin leggur til, og flytja síðan skrokkana aftur suður á markað? Ég skil það ekki. En hæstv. landbrh. hefur eflaust sínar skýringar á þessu, eins og á þessu með laxinn í gær. Auk þess jaðrar það við að vera mjög ill meðferð á dýrum að þvæla þeim um landið landshorna á milli.

Herra forseti. Það er annað sem ég hef miklar áhyggjur af varðandi aukafjárveitingar, þ.e. sú háa upphæð sem á að fara til Landspítala -- háskólasjúkrahúss. Um er að ræða um 1 milljarð. Ekki er gert ráð fyrir miklum hækkunum til Landspítalans í frv. til fjárlaga fyrir árið 2004 og má leiða að því líkur að á sama tíma að ári þurfi Landspítalinn aukafjárveitingu ef ekki verður gerð breyting á rekstri Landspítalans.

Í framhaldi er réttmætt að spyrja hverju sameining sjúkrahúsanna hafi skilað í sparnaði fyrir skattgreiðendur og bættri meðferð sjúklinga. Upp hefur komið gagnrýni á þessa sameiningu, m.a. frá formanni Læknafélagsins, og ljóst er að fjárframlög til sjúkrahúsanna hafa vaxið. Því er algjörlega nauðsynlegt að fara ofan í þessi mál og meta hvernig sameiningin hafi til tekist með það að markmiði að bæta úr rekstri þessa mikilvæga málaflokks.