Fjáraukalög 2003

Þriðjudaginn 07. október 2003, kl. 16:11:20 (244)

2003-10-07 16:11:20# 130. lþ. 5.3 fundur 87. mál: #A fjáraukalög 2003# frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 130. lþ.

[16:11]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Fjáraukalög þessa árs verða að líkindum með 5 milljarða kr. viðbót við fjárlög fyrir árið 2003. Þar með hefur rúmum 8 milljörðum verið eytt umfram fjárlagaheimildir því að það eru tekjur á móti gjöldum upp á um 3 milljarða.

Þessar tillögur sem hér eru lagðar fram koma til viðbótar fjáraukalögum sem samþykkt voru á Alþingi 14. mars sl. og af þessari 8 milljarða kr. umframkeyrslu munar mest um 2,3 milljarða undir liðnum heilbr.- og trmrn., 1,5 milljarða hjá félmrn. og 1 milljarð til hvors ráðuneytis, menntamála og umhverfismála.

Umframútgjöld heilbr.- og trmrn. þessa árs virðast að stórum hluta stafa af miklum hallarekstri á sjúkrahúsum og einnig vegna sjúkratrygginga. Í þessu frv. til fjáraukalaga er lögð til viðbót upp á 1.234 millj. kr. vegna Landspítala -- háskólasjúkrahúss. Þessi vandi Landspítala -- háskólasjúkrahúss var nákvæmlega sá sami á síðasta ári og er reyndar til staðar ár eftir ár. Að sjálfsögðu má af ýmsum skiljanlegum ástæðum gera ráð fyrir að kostnaður af þjónustu við sjúklinga fari vaxandi milli ára, fjöldi aðgerða fer vaxandi og ný og betri tækni kostar mikið fé. Þjóðin eldist, og hærri aldri fylgir oft meiri þjónusta. Þetta vitum við jú öll, við vitum hins vegar ekki hvernig kostnaðurinn skiptist og í hvaða aðgerðum hann er flokkaður niður. Ég hef áður bent á það við umræðu um vanda Landspítala -- háskólasjúkrahúss að ef þessi vandi á ekki að koma okkur aftur og ítrekað á óvart verður sem fyrst að taka upp kostnaðargreiningu á tæknivæddustu sjúkrahúsum okkar. Það væri fróðlegt ef hæstv. ráðherra gæti í stuttu máli gert grein fyrir því hvernig kortleggja eigi þennan vanda á næstu árum því að eins og ég gat um áðan er hann viðvarandi og virðist koma upp við hverja fjárlagagerðina á fætur annarri.

Varðandi utanrrn. gagnrýndum við þátttöku Íslands í stríðinu í Írak og hér er farið fram á aukafjárveitingar vegna Íraksstríðsins upp á 300 millj. kr. vegna neyðaraðstoðar og uppbyggingarstarfsins í Írak. Til íslenskrar friðargæslu er sótt um 50 millj. kr. til að mæta ófyrirséðum kostnaði sem fallið hefur til vegna reksturs flugvallarins í Pristina í Kosovo. Það kemur reyndar fram að verkefnið hafi reynst kostnaðarsamara en gert var ráð fyrir vegna þess að aðilar sem falið var að taka þátt í kostnaðinum hafi ,,heykst á því og ber Ísland kostnaðinn sem forustuþjóð``. Þetta er náttúrlega nokkuð skrýtið orðalag og var reyndar gefin nokkur skýring á því í morgun í fjárln. en ég hygg að hafi það legið fyrir að við yrðum að bera þennan kostnað ef ekki aðrir bæru hann ættum við ekki að orða þetta með þessum hætti. Ég skil a.m.k. þennan texta eins og hann er fram settur svo að einhverjir hefðu átt að bera þennan kostnað með okkur en þeir hafi hreinlega svikið það. Og það er þá miklu betra að það sé ekki orðað þannig í fjáraukalagafrv. ef skýringin er eðlileg og það hefur alltaf legið fyrir að við mundum þurfa að bera kostnaðinn ef hann færi fram úr áætlun. Þess vegna held ég að rétt væri að breyta þessu orðalagi í fjáraukalagafrv.

[16:15]

Þessar fjárveitingar bætast ofan á mjög dýran rekstur utanrrn. sem þanist hefur út ár frá ári og nemur í fjárlögum nú 5,5 milljörðum og hafði hækkað um 300 millj. frá því í fyrra, fyrir árið 2003, þegar kostnaðurinn var 5,2 milljarðar. Og það þarf enn að bæta í samkvæmt þessu núna um 372 millj. Það fer auðvitað að verða spurning í hvers konar stórveldaleik Íslendingar eru í utanríkisþjónustunni. Þó að veröldin sé stór getum við sem lítil þjóð varla verið þátttakendur um allan heiminn með okkar utanríkisþjónustu, þannig að ég held að menn hljóti að þurfa að spyrja sig að því á hvaða vegferð við erum í utanríkisþjónustunni.

Það má líka spyrja um hvert stefni í löggæslumálum því það kemur fram að ríkislögreglustjórinn er dýr í rekstri og eru áætlaðar 27,2 millj. í þessu fjáraukalagafrv. ofan á þær 637 millj. sem hann fékk samkvæmt fjárlagafrv. Síðan er auðvitað þessi sérstæða ósk sem kom fram í sumar, sem hv. þm. Steingrímur Sigfússon minntist reyndar á rétt áðan, að ríkislögreglustjóri lýsti því sérstaklega yfir að ef hann ætti að fá ákveðið verk til að vinna þá mundi hann biðja um sérstaka fjárveitingu fyrir það. Það er auðvitað afar sérstakt þegar forsvarsmenn og stjórnendur ríkisstofnana setja það bara sem skilyrði að ef þeir eigi að vinna einhver opinber verk sem þeim ber samkvæmt lögum, þá verði ekkert aðhafst í því fyrr en sérstök fjárveiting komi til þess að takast á við það. Í þessu sambandi er kannski rétt að minna á rannsóknina á Bónus þar sem menn töldu ekki eftir sér að hoppa til Færeyja til þess að rannsaka það mál og þurfti enga sérstaka fjárveitingu til. Það var nú reyndar í samkeppnismálunum.

Því er vakin athygli á þessu að það er auðvitað afar sérstakt að svona birtist og þess vegna er minnst á það hér.

Ég get ekki séð að minnst sé á vanda Ríkisútvarpsins og að tekið sé á honum og það er mál sem verður skoðað sérstaklega á milli 1. og 2. umr.

Það er eitt atriði, herra forseti, sem mig langar til að minnast á til viðbótar sem kom upp í fjáraukalagafrv. Það er varðandi svokallaða þjóðlendunefnd sem heyrir undir forsrn., óbyggðanefndina svokölluðu sem vinnur með þjóðlendulögin. Það er beðið um 22,6 millj. í þeim fjáraukalögum sem við erum hér að ræða. Á undanförnum árum hafa farið í starfsemi þessarar nefndar að meðaltali, sýnist mér, frá árinu 2002 að telja um 65 millj. kr. á ári. Ég er því miður ekki með upplýsingar um framúrkeyrsluna í fjáraukalögunum í fyrra en ég hygg að hún hafi verið einhver, en mér sýnist þegar litið er á þá fjármuni sem farið hafa í þetta verkefni sem fylgir því að skilgreina hálendi Íslands og eignastöðu bænda varðandi Ísland, hálendi þess og öræfi jafnvel, að þá hafi okkur tekist að setja í þessa sérstöku málsmeðferð sem við settum af stað 191 millj. á aðeins þremur árum og að kostnaðurinn í þessu verkefni fari ört vaxandi. Og það sem meira er að það geti enginn séð fyrir hver þessi kostnaður verði á endanum. Svo virðist sem hér sé á ferðinni einhver opin verkbeiðni sem lúti einfaldlega þeirri stýringu að lögmenn vinna í þessu starfi og leita eftir að fá skilgreiningu á því hvaða land ríkið eigi af fyrrverandi landareignum bænda og bændur reyna svo að verjast, að sjálfsögðu, og ríkissjóður þarf líka að greiða þann kostnað. Má auðvitað telja það eðlilegt þegar farið er að efast um eignarrétt manna á landi sem þeir hafa talið sig eiga og hafa árum og jafnvel árhundruðum saman verið í sömu ættum.

Ég hef sagt það áður í þessum ræðustól, herra forseti, að ég vissi ekki hvar menn ætluðu að draga línur í þessu máli ef þeir ætluðu ekki að virða löglega pappíra fólks um landareignir. Mér sýnist, herra forseti, að það sé fullt tilefni til þess hjá fjárln. að skoða vandlega í hvaða farveg þetta mál er að fara. Mér sýnist það vera að fara nokkuð úr böndunum. Ég vil alla vega spyrja hæstv. fjmrh. að því hvort hann hafi í upphafi ferils þessa máls búist við því að kostnaðurinn hlypi á nokkur hundruð millj. kr. bara við það að skilgreina þessi mál. Ég vil reyndar líka spyrja að því hvort hann með sína þekkingu á málefnum ríkissjóðs geti áætlað það fyrir okkur hvar þetta muni enda. Mun þetta stöðvast við 300 millj., mun þetta stöðvast við hálfan milljarð eða fer þetta í miklu hærri tölur?

Ég held að allir hafi talið að hér væri um tímabundið verkefni að ræða, að skilgreina landareign hér á landi, hvað teldist til ríkiseigna og hvað teldist til eigna landeigenda og bænda og sveitarfélaga. Ég vek athygli á þessu, herra forseti, vegna þess að mér sýnist að þetta mál sé að fara úr böndunum og það sé full ástæða til að skoða það vandlega.

Svo er rétt að víkja að einu öðru atriði, herra forseti. Það kemur hér fram í fjáraukalagafrv. undir samgrn. þar sem fjallað er um Siglingastofnun að þar er lagt af stað með nýtt málefni sem skapast af því að verið er að tala um nýjar alþjóðlegar reglur um siglingaverndaráætlun. Kemur það til af því að í heiminum hefur jú verið ófriðvænlegt hvað varðar skemmdarverk og aðra slíka starfsemi á undanförnum missirum og í kjölfar atburða 11. september fyrir tveimur árum er það auðvitað svo að ýmislegt þarf að endurskoða varðandi öryggismál. Mér sýnist að ef þróa á þetta eftirlit varðandi hafnir og flutninga að og frá landi eftir ströngustu öryggiskröfum sem gera má ráð fyrir í framtíðinni, þá geti hér orðið um verulegan kostnað að ræða. Í þetta verkefni eru settar 10 millj. til samgrn. til þess að undirbúa það og er sjálfsagt ekki vanþörf á og 11 millj. eru í fjárlögum. En hér gæti akkúrat verið á ferðinni mjög nýr og aukinn kostnaðarliður sem að öllum líkindum mun þá koma fram í verðlagningu á vöru og þjónustu þegar fram í sækir, því ég geri ráð fyrir að þessi kostnaður muni að stærstum hluta falla á flutningsaðila, skipafélög á komandi árum sem þýðir auðvitað að flutningsgjöld verða þá hærri og ganga þannig til neytenda að lokum.

Herra forseti. Að lokum get ég ekki látið hjá líða að minnast á stefnu ríkisstjórnarinnar í byggðamálum. Stefna ríkisstjórnarinnar í byggðamálum hefur valdið og mun að óbreyttu áfram valda frekari byggðaröskun og vaxandi atvinnuleysi, sérstaklega í sjávarbyggðunum. Enn þá er fólk sem sagt að flytja af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins. Stjórnarflokkarnir hafa nú í upphafi þings og fyrir kosningar talað um að hér ríkti góðæri og menn stæðu að því að halda hér stöðugri og góðri atvinnu og tryggja góða framtíð. Ég hygg að kannski megi draga þá ályktun af því að fólk er enn þá að flytja af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins að það telji að hér hljóti góðærið að vera. Hér er jú gósentíð viðskiptanna. Hér skiptast menn á hlutabréfum og veifa pappírum hver framan í annan og eignast hlut í þessu fyrirtækinu einn daginn og hinu þann næsta, og skipta síðan á milli sín þessum eignum að lokum. Viðskiptabankar og nýir eigendur þeirra ráða ferðinni. Það er svo sem ekki óeðlilegt að fólk dragi þá ályktun úti á landsbyggðinni þar sem vegið hefur verið að undirstöðu byggða að hér ríki góðærið.

Það sem vegið hefur að undirstöðu byggðanna og hægt væri að ræða um í löngu máli er m.a. sölukerfi kvótans, það mikla ranglæti sem því fylgir og stefnir atvinnuöryggi fólks og eignastöðu þess í hættu. Atvinnuöryggi fólksins eru fjárlög þess og hin hagsýna húsmóðir getur ekki hækkað skatta til þess að auka tekjur sínar. Það getur ríkisstjórnin gert og eykur skattbyrði á fólk með lágar tekjur með því að persónuafsláttur heldur ekki raungildi sínu og hefur ekki gert nú um nokkur ár.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa lengra mál um fjárlögin og fjáraukalögin að þessu sinni en að sjálfsögðu munum við taka umræðu aftur um fjáraukalögin og fjárlögin eftir skipulega vinnu fjárln. og þá verður vafalaust farið að skýrast betur hvað endanlega verður í spilunum fyrir þetta ár og næsta ár.