Fjáraukalög 2003

Þriðjudaginn 07. október 2003, kl. 16:52:18 (250)

2003-10-07 16:52:18# 130. lþ. 5.3 fundur 87. mál: #A fjáraukalög 2003# frv., EMS
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 130. lþ.

[16:52]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Ég hafði ekki alveg lokið yfirferð minni þegar tími minn var á þrotum í fyrri ræðunni. Ég var þar staddur að ég var að fjalla um hinn svokallaða stjórnarráðsreit, þær framkvæmdir og þann mikla kapal sem þar hefur verið í gangi að undanförnu. Ég hafði lagt það saman og var þar staddur að það væri augljóst mál að sá kapall sem væri bara innan fjáraukalagafrv. væri upp á rúmar 130 millj. kr., þ.e. það sem menn hafa talið að væri ófyrirséð þegar þeir gengu frá fjárlögum fyrir árið, upp á 130 milljónir kr. og skiptist það á nokkrar framkvæmdir, en fyrst og fremst líklega á ein fjögur hús ef allt er talið.

Það var nokkuð fleira sem vakti athygli mína og sérstaklega í textanum sem fylgir við skýringar á ýmsum þessara framkvæmda eða breytinga sem orðið hafa þarna á reitnum. Fyrst er það dóms- og kirkjumrn. Það vekur óneitanlega verulega athygli að ráðuneytið fer úr 650 fermetrum í 1.470 fermetra. Ekki getur sú skýring ein verið að skipt hafi verið um ráðherra. Það hljóta einhverjar fleiri skýringar að koma til og ég vona að hæstv. fjmrh. hafi einhverjar skýringar á þessari miklu aukningu. Þetta er meira en tvöföldun á stærð ráðuneytisins. Og ekki könnumst við við að slík aukning á starfsemi hafi átt sér stað milli ára að það kalli á þá miklu stækkun.

Þessu til viðbótar varðandi húsnæðið sem þarna er um að ræða í Skuggasundi, segir hér, með leyfi forseta:

,,Að auki hefur verið nauðsynlegt að breyta nokkrum þáttum í nýju húsnæði frá því sem áður var ákveðið...``

Frá því sem áður var ákveðið. Nú skyldi maður ætla að þetta hljóti að hafa verið ákveðið fyrir þó nokkuð mörgum árum. En það er alls ekki, því það lá fyrir í lok síðasta árs þegar farið var í framkvæmdirnar hvað ætti væntanlega að gera þarna og enn þurfti samt sem áður að breyta. Og enn er leitað skýringa, hæstv. fjmrh., hvað þarna er á ferðinni.

En það er fleira sem kemur við sögu í sambandi við þessi húsnæðismál eða þann mikla kapal sem þarna hefur farið í gang. Næst kemur að því að skoða Hagstofuna sem tengist þessu á þann hátt að Hagstofan flutti úr húsnæði á þessum reit en flutti síðan upp í Borgartún. Þar virðist ýmislegt hafa gerst sem ekki var séð fyrir. Þar kemur m.a. fram --- og herra forseti, það er rétt að taka það fram í upphafi að á fjárlögum þessa árs er gert ráð fyrir rúmlega 40 millj. kr. vegna flutninga Hagstofunnar, þannig að það er ekki eins og enginn hafi vitað af þeim flutningi. En núna til viðbótar er beðið um 4,6 milljónir vegna aukins húsnæðiskostnaðar í Borgartúni 21a. Hvers vegna skyldi þetta vera, herra forseti? Skýringin er þessi:

,,Auk þess er hið leigða húsnæði 110 fermetrum stærra en reiknað var með í fjárlögum 2003.``

Voru menn sem sagt búnir að leigja húsnæði uppi í Borgartúni án þess að vita hvað það væri stórt? Komust menn ekki að raun um hversu stórt það var fyrr en þeir voru fluttir og fóru að mæla? Eða hver er skýringin á þessum mismum? Og þarna til viðbótar hafa menn verið að leigja geymslurými í kjallara sem ekki virðist hafa verið gert ráð fyrir.

En það er ekki bara þessi tala heldur er önnur tala miklum mun stærri, upp á tæpar 32 millj. kr. vegna flutnings þjóðskráarinnar. Þess er hins vegar getið á fjárlögum fyrir þetta ár að þjóðskráin muni flytja á þessu ári. Þarna er veruleg aukning sem ekki virðist hafa verið fyrirséð við þennan kostnað. Meðal annars kemur fram að það hefur kostað 18 millj. kr. að standsetja og flytja í húsnæðið. Væntanlega umfram það sem menn gerðu ráð fyrir á fjárlögum.

Herra forseti. Örlítið hefur verið rætt um vanda framhaldsskóla en ég held að ekki hafi verið mikið minnst á vanda háskólanna. Það er auðvitað mjög athyglisvert að skoða þær tölur sem hér eru nefndar og hæstv. fjmrh. taldi að væntanlega væri búið að bjarga nær öllum framhaldsskólum landsins, því alltaf sé verið að taka á þeim mikla vanda. Það verður þó að segjast að gagnvart þessu ári og fjárlögum þessa árs --- og mér sýnist á þessum tölum að mestu leyti, þó er einstaka undantekning á því --- er gert ráð fyrir 180 milljónum vegna uppsafnaðs rekstrarhalla og hinum frægu 70 milljónum vegna aukinna veikinda sem koma að auki inn í pottinn. En fram að þessu hefur breytingin eingöngu verið sú gagnvart framhaldsskólunum á þessu ári og eins í fjáraukalögum og í fjárlagafrv. fyrir næsta ár að eingöngu er verið að tala um nemendafjölda.

Þegar hæstv. ráðherra talar um það að á einhverjum tímapunkti hafi um það bil helmingur framhaldsskólanna verið í lagi meðan hinir voru með halla, þá hefur ekkert annað verið gert en það að afgangurinn hefur verið minnkaður af hinum til þess að jafna það. Það hefur ekkert verið aukið í pottunum. Þróunarstarf í framhaldsskólum er því auðvitað í verulegri hættu vegna þess arna.

En hvað er núna verið að gera varðandi nemendur í framhaldsskólum og háskólum? Það er augljóst mál að sú nemendaaukning sem hér er gerð grein fyrir varðandi háskólana fullnægir ekki því sem háskólarnir segja um nemendafjöldann. Eingöngu er verið að koma til móts við það sem núverandi samningar leyfa, það er ekki verið að taka upp neina samninga.

Og í sambandi við framhaldsskólana er auðvitað mjög athyglisvert að sjá að hér er gert ráð fyrir minni fækkun en er í skólunum, vegna þess að við erum jú stödd núna í októbermánuði og það er nokkurn veginn ljóst hvaða nemendafjöldi er í skólunum. En það sem er enn athyglisverðara er að miðað við þá tölu sem er í fjárlagafrv. um nemendafjölda í framhaldsskólunum þá er gert ráð fyrir því í fjáraukalagafrv. fyrir árið 2003 að nemendur í framhaldsskólum verði 16.373, en í fjárlagafrv. fyrir árið 2004 er gert ráð fyrir að nemendur verði 16.220. Og, herra forseti, ég spyr: Hvenær hefur það gerst á síðustu árum að nemendum í framhaldsskólum hafi fækkað? Hér er vonandi um mistök að ræða sem verða leiðrétt í meðförum fjárlaganefndar.

Fleira var það, herra forseti, sem vakti athygli mína, m.a. það að óljóst virðist vera hvernig verkaskipting er á stundum milli ráðuneyta. Það vekur a.m.k. verulega athygli að forsrn. er að kaupa sérstakt kvikmyndasafn. Örugglega hið merkilegasta og vænsta safn. Þetta er kvikmyndsafn Vigfúsar Sigurgeirssonar. En það er ekki menntmrn. sem kaupir það. Ljóst er að það verður vistað í Kvikmyndasafni Íslands sem heyrir undir menntmrn. Í frv. er ekki að finna neina skýringu á því hvernig á því standi að forsrn. kaupir þetta kvikmyndasafn en ekki þeir aðilar sem maður hefði talið eðlilegt að kæmu að því máli.

Og eitt málið í viðbót fyrst ég er að fjalla um það sem tilheyrir forsrn. Það er býsna athyglisverð beiðni sem hér er farið fram á. Ég trúi því ekki að hæstv. fjmrh. geti rökstutt þá beiðni með því að hún hafi verið ófyrirséð, af þeirri einföldu ástæðu að hér er farið fram á 8 millj. kr. til að standa straum af kostnaði við undirbúning vegna ýmissa viðburða í tilefni 100 ára afmælis heimastjórnar. Það er væntanlega búið að vera vitað í um það bil 100 ár að 100 ára afmæli væri á næsta ári, það getur því ekki verið að það falli undir ,,Annað og ófyrirséð``.

[17:00]

Herra forseti. Það hefur verið rætt nokkuð um ríkislögreglustjóraembættið og einhver hv. þm. benti á að það væri langt síðan ekki hefði verið áætluð aukning til þessa embættis. Það vekur sérstaka athygli, vegna þess að það varð veruleg seinkun á því að Almannavarnir væru fluttar yfir til embættisins, að fjórir fyrstu mánuðirnir hjá Almannavörnum ríkisins, hinu forna, kostuðu tæpar 20 millj. kr. og sótt er um fjármuni til þess vegna þess að það var áætlað fyrir öllu saman hjá ríkislögreglustjóra. En frá ríkislögreglustjóra eru aðeins dregnar 7,3 millj. kr., þrátt fyrir að flutningurinn hafi ekki verið fyrr en, ef ég man rétt, 1. maí eða þar um kring. Vonandi er þarna að gerast það sem var lagt upp með, og hefur því miður yfirleitt ekki fylgt varðandi ríkislögreglustjóraembættið, en talað var um að með því að flytja Almannavarnir þangað ætti að spara stórfé. Ég vona að þessar tölur sýni okkur að það hafi tekist.

Herra forseti. Enn á ný er tími minn á enda og ég á þó eftir nokkur atriði. Ég vil enda á að fjalla um bifreiðar Stjórnarráðsins, vegna þess að það kemur í ljós að beðið er um 18 millj. kr. vegna aukins kostnaðar við bifreiðar Stjórnarráðsins. Nú man ég, herra forseti, að hæstv. forsrh. og hæstv. landbrh. endurnýjuðu bifreiðar sínar á síðasta ári. Nú spyr ég hæstv. fjmrh.: Hvaða bílar eru nú á ferðinni upp á 18 millj. kr.? Ég man ekki til þess að það sé svo mikil endurnýjun í ráðherraliðinu að það kalli á þennan mikla bílaflota, en ég vænti þess að hæstv. fjmrh. geti upplýst okkur um þetta.

Herra forseti. Það er augljóst að ýmislegt í þessu frv. var fyrirséð og þess vegna ekki boðlegt að bjóða okkur upp á það að rökin fyrir ýmsum liðum hér séu að þeir hafi ekki verið fyrirséðir. En, herra forseti, þetta frv. mun að sjálfsögðu fá vandaða vinnu í fjárln. og ég vænti þess að þegar það kemur aftur fyrir þingið verði búið að gera á því ýmsar breytingar.