Fjáraukalög 2003

Þriðjudaginn 07. október 2003, kl. 17:03:07 (251)

2003-10-07 17:03:07# 130. lþ. 5.3 fundur 87. mál: #A fjáraukalög 2003# frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 130. lþ.

[17:03]

Steingrímur J. Sigfússon:

Frú forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu en ég verð að segja það að mér fundust svör hæstv. fjmrh. efnisrýr og svolítið loðin á köflum. Þegar spurt er beint um tölfræðilega hluti eins og hversu langt 180 milljónir ganga upp í vanda framhaldsskólanna, hefði maður gjarnan viljað fá aðeins nákvæmara svar heldur en að það ,,fari býsna langt með`` eða ,,að það sé býsna vel gert við framhaldsskólana með þessu``, ,,að komið sé til móts við þá`` o.s.frv. Allt orðalagið, bæði í grg. frv. og í svörum hæstv. ráðherra, var á þessum nótum. Það er ekki mjög nákvæmur kvarði, finnst mér, að ræða um peningalegar stærðir með lýsingarorðum eða setningum af þessu tagi, ,,koma til móts við``, býsna langt með``, ,,allvel gert við`` o.s.frv. Eru þá 50 milljónir eftir eða 150 milljónir, eða hvernig kvarðar hæstv. fjmrh. þessa orðanotkun við hinar köldu staðreyndir veruleikans sem stjórnendur framhaldsskólanna glíma við, að þeir hafa dregið mikinn skuldahala á eftir sér. Maður batt vonir við að þegar loksins yrði tekið á annað borð á þessu þá gerðu menn borðið sæmilega hreint.

Eins var það með ríkislögreglustjórann að mér fannst hæstv. fjmrh. vera að reyna að komast mjög ódýrt frá því að ræða þá athyglisverðu uppákomu þegar þessi opinberi embættismaður ætlaði að fara að skilyrða starfsemi sína með þeim hætti að hann léti ákveðin stór verkefni á sínu starfssviði mæta afgangi, eða bara sinnti þeim ekki neitt, nema hann fengi sérstaklega fjárveitingar til þess. Það var helst á fréttum fjölmiðla að skilja að ríkislögreglustjóri vildi fá eyrnamerkta einhverja tugi milljóna, mig minnir að það hafi verið talað um kannski 20--25 milljónir, gagngert í það að rannsaka tiltekið nafngreint mál, sem var auðvitað mjög óvenjulegt, en engu að síður var þetta svona.

Hæstv. fjmrh. svarar hér með því að það sé ekki venjan að eyrnamerkja fjárveitingar eða aukafjárveitingar við sérstök verkefni. Það er sjálfsagt rétt, en er þá engin niðurstaða í málinu? Stendur það þá bara þannig áfram?

Síðan hefur hæstv. fjmrh. alloft vitnað til þess að hlutirnir eigi heima hjá fagráðherrunum. Hvar eru þeir? Þeir eru ekki hér, hæstv. forseti, þeir láta ekki sjá sig, hvorki landbrh., til að standa skil á umræðum um sláturhúsamál, eða t.d. dómsmrh. til að ræða þetta með ríkislögreglustjóra. Það hefði nú verið fengur að því að fá þessa hæstv. ráðherra til þess að hjálpa hæstv. fjmrh. að fylla í eyðurnar.

Eins hefði ég gjarnan viljað fá afdráttarlausari svör hvað varðar málefni Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri. Ég fagna því að vísu að menn líti svo á að það sé markmið og keppikefli að nýta t.d. það mikla húsnæði sem þar stendur enn ónotað og er alveg dæmalaus uppákoma, m.a.s. deildir innan spítalans sem búa við mjög mikil þrengsli hafa ekki, vegna fjárskorts, komist í þá aðstöðu sem þarna bíður, hvað þá að hún væri nýtt til þess að efla og taka upp nýja starfsemi sem sannarlega væri þörf fyrir.

Síðan verð ég að segja það líka út frá þeim umræðum sem spunnust um sölu Landsbankans að það er ekki eitt heldur allt sem er á eina bókina lært í þeim efnum hjá hæstv. ríkisstjórn. Nú upplýsir hæstv. ráðherra að til öryggis sé slegið tveimur milljörðum af áætluðu söluverðmæti, það sé svona áætlað fyrir því að þetta skili færri krónum vegna gengisbreytinga og afsláttarreikningarnir, vegna vondra útlána eða hvað það nú var sem menn áskildu sér í þessum kaupsamningi rétt til þess að draga frá kaupverðinu, geti hlaupið á tölum af þessu tagi.

Þetta kemur til af verklagi hæstv. ríkisstjórnar, útsöluhugsunarhættinum, sem hefur alltaf einkennt framgöngu sjálfstæðismanna þegar kemur að því að koma ríkiseignunum bara einhvern veginn út, losna við þær. Frægast var þegar forveri hæstv. fjmrh. hafði uppi vangaveltur um að það væri svo mikilvægt að koma ónefndu ríkisfyrirtæki úr eigu ríkisins og yfir til einkaaðila að það mætti jafnvel velta því fyrir sér hvort það væri ekki í lagi að það færi bara á hálfvirði, bara til þess að losna við það, bara til þess að koma því í hendurnar á einkaaðilum. Tilgangurinn helgaði meðalið. Sem sagt algjört trúboð.

Ríkisstjórnin rauk til og seldi bankana með þeim endemum sem allir þekkja. Hún sneri 100% við blaðinu og áform um dreifða eignaraðild og að fara í þetta af einhverri yfirvegun, allt var þetta lagt til hliðar og tekið upp þetta fína nýyrði ,,kjölfestufjárfestir``, sem allt í einu átti að fá ráðandi hlut í bönkunum, en fáeinum mánuðum áður hafði það verið algjört bannorð að einhver einn aðili ætti svona stóran hlut í banka. Forsætisráðherra og Morgunblaðið og fleiri héldu því fram að það væri stórvarasamt að einhverjir slíkir aðilar hefðu ráðandi hlut í bönkunum.

Síðan var þessu snúið við og nú hét það að finna kjölfestufjárfesti. Og hvernig gekk það? Jú, annars vegar var Samson-hópnum seldur Landsbankinn, sem mun kannski skila allt að 2 milljörðum minna í ríkissjóð en til stóð. Samson lýsti því yfir í þeim töluðum orðum eða gjörðum að þeir skrifuðu undir kaupsamninginn að þeir ætluðu ekkert endilega að eiga bankann nema í fáein ár, enda virðast þeir líta meira á hann sem tæki í sínum höndum til að valsa um í íslensku atvinnulífi heldur en banka.

Hvernig var með hinn bankann, Búnaðarbankann? Jú, hann var seldur og það var skrifað undir fyrir áramót. Ekki borguð ein einasta króna, enda áttu þeir sem keyptu enga peninga. Það var aukaatriði í huga hæstv. fjmrh., aðalatriðið að fá undirskriftina. Það verður þá væntanlega eitthvert gengistap á honum líka. Hins vegar var þetta bókfært hjá fjmrh., að hluta til, á árinu 2002 til að þeir reikningar kæmu betur út þó að það væri ekkert borgað. Hluti af söluandvirði Búnaðarbankans var bókfærður á árinu 2002 þó að það kæmi ekki króna í kassann, og engin ósköp kannski komin enn. Svona var nú að þessu staðið og fleira mætti tína til úr þessu kostulega ferli.

Hefur hæstv. fjmrh. t.d. farið yfir það, því að nú er þetta að nokkru leyti á hans ábyrgð og í hans verkahring þegar um eignir ríkisins er að ræða, hvernig var með erlenda banka sem áttu að vera samstarfsaðili S-hópsins í kaupunum á Búnaðarbankanum? Hefur hæstv. fjmrh. heyrt eitthvað af honum nýlega? Hvar er hann? Átti hann ekki að koma með sérþekkingu og kjölfestu inn í bankakerfið? Hét hann ekki Société Générale, franskur banki? Svo bara gufar hann allt í einu upp. (Gripið fram í.) Hvað fékk hann kannski fyrir nafnið sitt? Hefur hæstv. fjmrh. skoðað hvort þeir hafi fengið eitthvað fyrir nafnið sem þeir lánuðu í þetta kostulega ferli til þess að það liti betur út, að það væri erlendur samtarfsaðili væntanlegur með í kaupin? Svo kom að vísu í ljós að það kynni að verða einhver annar banki heldur en Société Générale, kannski einhver þýskur banki. Ég hef ekki heyrt af neinu. Svona er þetta. Kannski finnst hæstv. fjmrh. þetta allt í lagi, alveg eins og honum finnst allt í lagi að leggja fram fjáraukalagafrv. þar sem allt í einu eru komnir inn stórkostlegir afslættir frá því kaupverði sem átti þó að heita að væri verið að fá fyrir bankana. Síðan hafa þeir reynst bólgnir af hagnaði, gengi bréfa þeirra hefur hækkað þannig að það er auðvelt að reikna að ríkið var að selja þá á lélegu verði miðað við það sem greinilega var í pípunum að hægt væri að fá fyrir þá. E.t.v. telur hæstv. fjmrh. Geir Haarde að tilgangurinn helgi alveg meðalið.

Það er auðvitað löngu tímabært, herra forseti, að fram fari rækileg og ítarleg opinber úttekt á framkvæmdinni allri þegar þessa hluti ber á góma og ótrúlegt, í raun og veru, hvernig menn hafa stanslaust breytt um aðferðir í sambandi við þessa einkavæðingu eða sölu ríkisfyrirtækja. Það er eiginlega aldrei notuð sama aðferðin, nema í eitt skipti, alltaf fundið upp á einhverju nýju, af því að það hentar betur pólitískum hagsmunum, helmingaskiptum og hrossakaupum stjórnarflokkanna hverju sinni. Þetta forsvarar hæstv. fjmrh., það er a.m.k. ekki að heyra annað.