Fjáraukalög 2003

Þriðjudaginn 07. október 2003, kl. 17:33:49 (257)

2003-10-07 17:33:49# 130. lþ. 5.3 fundur 87. mál: #A fjáraukalög 2003# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 130. lþ.

[17:33]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þingmaðurinn tekur sér gjarnan í munn orðið siðlegt eða ósiðlegt. Hann hafði hér ákveðin ummæli uppi um hvað væri ósiðlegt. Ég segi fyrir mig að ég tel að það sé ósiðlegt að saka ráðamenn þjóðarinnar, ráðherrana í ríkisstjórninni, um að ganga erinda einstakra manna eða með öðrum annarlegum hætti umgangast þær eignir sem þeim hefur verið falin forsjá fyrir. Ég vísa a.m.k. fyrir mitt leyti slíkum ásökunum algerlega á bug og treysti mér til að gera það fyrir hönd annarra (Gripið fram í: Framsóknarflokksins líka?) ráðherra í ríkisstjórninni. Það er bara ekkert viðeigandi að bera mönnum á brýn slíka annarlega starfsemi eða annarlegar hvatir í þeim störfum sem þeir eru að vinna hér í umboði meiri hluta Alþingis.