Fjáröflun til vegagerðar, vörugjald af ökutækjum o.fl.

Þriðjudaginn 07. október 2003, kl. 18:03:40 (260)

2003-10-07 18:03:40# 130. lþ. 5.4 fundur 90. mál: #A fjáröflun til vegagerðar, vörugjald af ökutækjum o.fl.# (hækkun þungaskatts og vörugjalds) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 130. lþ.

[18:03]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. fjölyrti ekki um þetta mál þegar hann mælti fyrir því. Hann gaf þá skýringu að um væri að ræða fylgifrumvarp með fjárlagafrv. sem leiðrétti eða stillti af tekjuforsendur fjárlagafrv. varðandi fjáröflun til vegagerðar, álagningu þungaskatts og bensíngjalds.

Engu að síður er um að ræða allnokkra hækkun umfram verðlagsforsendur eða uppfærslu fjárlagafrv. milli ára. Hún er 2,5% ef ég hef tekið rétt eftir. Þannig eiga menn sem eiga einhverjar ívilnanir undir fjárlagafrv. í formi hækkunar persónufrádráttar eða annars slíks að sætta sig við þá tölu á næsta ári. Skýringin á þessu er sú að sögn að menn hafi um árabil trassað að færa þessa tekjustofna Vegagerðarinnar og að hluta ríkisins upp til samræmis við verðlag. Það leyfi ég mér að gagnrýna mjög harðlega. Það er ákaflega óheppilegt að menn, ef þeir ætla að halda þessum tekjum hlutfallslega og standa undir þeim verkefnum sem á þeim byggja, t.d. vegagerð í landinu, þurfi á margra ára fresti að taka stór stökk í þessu eins og hér er ætlunin að gera.

Að sjálfsögðu er ég ekki talsmaður þess að menn skerði þessa tekjustofna jafnt og þétt með því að þeir fylgi ekki verðlagi. Það væri ábyrgðarleysi að tala með þeim hætti. Horfast þarf í augu við hina hlið málsins, þ.e. að draga mundi úr tekjum til vegagerðar í landinu að því leyti sem hér er um hinn markaða tekjustofn til samgöngumála að ræða. Hins vegar er afar óheppilegt að standa að málum með þeim hætti sem hæstv. ráðherra eða hæstv. ríkisstjórn gerir hér. Reyndar vottaði fyrir iðrun í máli hæstv. fjmrh. þegar hann mælti fyrir frv., sérstaklega hvað þennan þátt varðar.

Svo má að sjálfsögðu líka nefna til sögunnar þá staðreynd að hinir umfangsmiklu skattar á umferðina nema sjálfsagt brúttó einum 30 milljörðum kr. eða vel það en lítill hluti þeirra rennur þrátt fyrir allt til að byggja upp samgöngukerfið og þjónusta umferðina í landinu. Ég held að það ætti að vera mönnum nokkurt umhugsunarefni hvort þau hlutföll hafi ekki skekkst um of á undanförnum árum. Menn hafa flotið áfram í skjóli þess að umferðin hefur aukist og þar af leiðandi hefur það ekki komið tilfinnanlega eða sýnilega að sök þegar menn horfa á tekjurnar að gjaldstofnarnir hafa ekki verið færðir upp til verðlags. En auðvitað hlýtur aukin umferð að kalla á aukna þjónustu og aukin mannvirki. Það er heldur betur staðreyndin. Þar er náttúrlega nærtækt að nefna þau gríðarlega dýru umferðarmannvirki á höfuðborgarsvæðinu sem verið er að þrýsta á um að ráðist verði í.

Það er nú þannig, herra forseti, að hver gatnamótin á fætur öðrum í höfuðborginni kosta einn milljarð króna stykkið. Við sem ökum upp í Breiðholt á kvöldin þekkjum það. Þar eru nokkur hundruð metrar á milli gatnamóta sem ýmist eru í byggingu eða nýlokið er við. Verðmiðinn á hverju stykki er um einn milljarður, eitt stykki mislæg gatnamót á meiri háttar umferðaræðum eins og Breiðholtsbraut og Reykjanesbraut eða hvað það nú er.

Einnig hefur réttilega verið á það bent að þetta frv., þessar hækkanir sem koma hér allt í einu í fjárlagafrv., eru nú ekki í beinu samræmi við yfirlýsingar og loforð stjórnarflokkanna fyrir kosningar, ekki síst Sjálfstfl. Ég man aldrei eftir því að Geir H. Haarde hafi á framboðsfundum vakið athygli kjósenda sérstaklega á því að hækka ætti þungaskattinn um 8% strax eftir kosningar. Ég man aldrei eftir því. (LB: Að tekjustofnar hafi ekki fylgt verðlagi?) Já, hann var ekki að útlista það að slíkir hlutir væru í vændum. Nei, það var talað mikið um skattalækkanir, gríðarlegar skattalækkanir.

Við tókum að vísu ekki þátt í þeim óráðskór, frambjóðendur og talsmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, sem því miður flestir aðrir falleruðust af (ÖS: Og BSRB.) en þegar veruleikinn birtist mönnum eftir kosningar, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, þá er hann einhvern veginn allt öðruvísi en þessi rjómagula birta sem menn virðast baðaðir í á framboðsfundunum. (ÖS: Í skattatillögum BSRB.) Ég heyri að það liggur vel á hv. þm. enda farið að kvölda.

Það breytir ekki því, herra forseti, sem hér er gert að umtalsefni, að ríkisstjórnin stendur ekki að málum með þeim hætti sem hún gaf tilefni til að ætla fyrir kosningarnar. Burt séð frá afstöðu manna til þess sem verið er að leggja til er það alltaf umfjöllunarefni í sjálfu sér hvort menn koma heiðarlega fram. Hvernig standa þeir við það sem þeir hafa lofað kjósendum? Það hefur ríkisstjórnin auðvitað ekki gert, hvorki Sjálfstfl. sem narraði fólk unnvörpum til að kjósa sig út á stórfelld loforð um skattalækkanir sem yrðu lögfestar strax á haustþinginu og þaðan af síður Framsfl. sem brá sér í gervi stjórnarandstöðuflokks. Framsfl. var heldur geðþekkur félagshyggjuflokkur í stjórnarandstöðu eins og hann auglýsti sig í sjónvarpinu fyrir tugi milljóna króna. En það er nú annað upp á teningunum núna. Reyndar er hann hvergi nærstaddur, Framsfl.

Það er líka tilefni til að fara yfir það, m.a. í ljósi umræðna sem urðu fyrirferðarmiklar víða í aðdraganda kosninganna síðast, að hér er að sjálfsögðu verið að hækka kostnað við flutning eða flutningskostnað á vöruverði úti um landið. Þegar það er skoðað er þungaskatturinn einn og sér ekki úrslitaatriði í því en hann hefur þó ákveðin uppsöfnunaráhrif í eðli sínu. Það er meinsemd sem veldur hærra vöruverði á landsbyggðinni en ella þyrfti að vera. Það verða uppsöfnunaráhrif í gegnum kostnaðarliði sem lenda í vöruverðinu og enda í virðisaukaskattinum sem lagður er ofan á endanlegt útsöluverð vörunnar þegar hún er komin til notenda á landsbyggðinni.

Þungskattinn verða menn að greiða eins og hann er hér á lagður í gjaldflokkum með tilliti til vegalengda sem eknar eru. Kannski eru ekki margir hér sem muna alla þessa sorgarsögu, frá því að menn voru með kerfi sem tók verulegt tillit til vegalengdanna í því formi að veittir voru afslættir og sett þak á álagningu þungaskatts þannig að ef ekið var yfir vissa vegalengd þá var umframaksturinn gjaldfrjáls. Þetta þýddi að verulegt tillit var tekið til skattlagningarinnar hvað varðaði flutning á lengstu leiðum. Þetta kerfi var slegið af. Samkeppnisstofnun taldi þetta ekki standast og menn voru að vandræðast með það í nokkur ár hvort hægt væri að finna annan farveg til að taka tillit til aðstæðna að þessu leyti en hafa síðan gefist upp á því. Niðurstaðan nú síðustu árin er sem sagt hrá álagning þungaskatts á hvern ekinn kílómetra. Þar af leiðandi hækkar skatturinn í þessum skilningi eftir því sem lengra er ekið.

Til að vinna á móti þessu hafa menn helst rætt um að taka upp einhvers konar endurgreiðslu flutningskostnaðarins, styrki sem þekktir eru sums staðar úr nálægum löndum. Í skýrslum sem stjórnvöld hafa glóðvolgar í höndunum er einmitt lagt til að menn fari frekar inn á þessa braut. Það er ljóst að slíkt er heimilt og brýtur engin samkeppnislög, hvorki innlend né evrópsk.

En það bólar ekkert á þessu, ekki neitt. Ég hef bara ekki heyrt af því að samgrh., fjmrh., byggðamálaráðherra eða nokkur af þessum fínu ráðherrum í ríkisstjórninni sé að gera nokkurn skapaðan hlut í þessu sambandi. Hins vegar koma hér hækkanir sem menn eiga að taka á sig að óbreyttu ástandi. Þá er von að menn hafi orð á því.

Hæstv. fjmrh. nefndi upptöku olíugjalds. Það verður gaman að glíma við það eina ferðina enn að fá hér frv. um álagningu olíugjalds í stað þungaskatts, þ.e. að færa skattlagninguna inn í sölu á olíu til þeirra aðila sem eiga að greiða skattinn. Ætli þau hafi ekki verið flutt þrisvar eða fjórum sinnum áður, slík frumvörp, eða a.m.k. oft rædd? Jafnharðan hafa menn gefist upp við það og oftast fyrir andstöðu olíufélaganna sem hafa lagst í mikinn lobbýisma og fundið því allt til foráttu að fara þá leið.

Því miður er það þannig að sé gjaldið flutt yfir í olíuna án nokkurra ráðstafana og menn finni þá einhvern lögmætan farveg til að koma aftur til móts við lengstu vegalengdirnar þá er hið sama upp á teningunum þar í grófum dráttum. Eldsneytisnotkunin er nokkurn veginn sambærileg við þær vegalengdir sem eknar eru þegar löngu flutningaleiðirnar eiga í hlut. Vandamálið hverfur þannig ekki heldur flyst það til eða færist yfir á nýtt form.

Það er auðvitað von að spurt sé: Er eitthvað að frétta af því hvort einhverjar ráðstafanir séu í vændum af hálfu ríkisstjórnarinnar til að mæta þessum þungbæra flutningskostnaði sem t.d. smásöluverslun býr við á fjarlægustu landshornum frá höfuðborginni. Er við því að búast að verslun í Norður-Þingeyjarsýslu þurfi að greiða meira fyrir flutningskostnað á kíló af lauki en fyrir laukinn sjálfan? Það er þannig. Ég skoðaði dæmi í vetur þar sem verslunareigandi á norðausturhorninu var með nótur yfir þessa merku vöru, lauk. Hann hafði keypt hann á einhverjar 40--45 kr. kílóið í heildsölu hér í Reykjavík en borgaði 55 kr. undir hann. Flutningskostnaðurinn var hærri en varan sjálf. Svona er staðan. Ofan á þetta leggur hæstv. fjmrh. Geir Hilmar Haarde fullan virðisaukaskatt, 24,5% ef í hlut á vara sem er á hærra þrepi. Annars lægra.

Þarna er ríkið að refsa mönnum fyrir að búa á vissum stöðum, með því að leggja virðisaukaskattinn ofan á uppsöfnuð áhrif annarrar skattlagningar og kostnaðarþátta sem safnast upp í svona tilvikum. Þetta hefur mikið verið rætt, herra forseti, en það gerist aldrei neitt. Það er stórmerkilegt hvernig mönnum tekst alltaf að þvæla þessum hlutum á undan sér án þess að taka á þeim á nokkurn hátt. Þó er alveg sannað mál að hátt vöruverð og rekstrarörðugleikar fyrirtækja á þessu sviði á landsbyggðinni eru eitt af höfuðvandamálum og meinsemdum í fjölmörgum byggðarlögum. Það er ekki nóg með að varan sé svo dýr sem raun ber vitni, sem skerðir lífskjör þessa fólks umfram aðra, heldur er hreinlega þjónustan sjálf ekki alltaf í boði vegna þess að það er ekki rekstrargrundvöllur fyrir henni.

Á þessu hafa menn yfirleitt reynt að taka í nálægum löndum. Það er a.m.k. þannig bæði í Noregi og Svíþjóð og ég hygg reyndar líka í Finnlandi, á norðursvæðunum. Þar eru við lýði ýmiss konar stuðningsaðgerðir sem eru til þess ætlaðar að mæta og vega upp aðstöðumun, t.d. verslunar í strjálbýli og jafnvel annarrar framleiðslustarfsemi. Af sjálfu leiðir að jafnerfitt og þetta er fyrir verslun þá er þetta náttúrlega enn þá tilfinnanlegra fyrir alla framleiðslustarfsemi sem er hægt og rólega að skattleggjast af landsbyggðinni. Það er augljóslega þannig að menn ráða ekki við að borga fyrst flutningskostnaðinn á aðföngunum út á land og síðan aftur flutningskostnaðinn á afurðunum inn á aðalmarkaðinn eða á leið sinni til útlanda í gegnum suðvesturhornið. Enda sitja menn víða og reikna hvað þeir græði mikið á að hætta að framleiða málningu, sápu, plastkör eða hvað það nú er úti á landi og flytja það bara hingað.

Það er yfirleitt auðvelt reikningsdæmi. Það er sparnaður sem hleypur á mörgum prósentum ef ekki tugum prósenta í rekstri viðkomandi fyrirtækja. Þetta kerfi getur ekki endað nema á einn veg. Ég held að hæstv. fjmrh. gerði rétt í að velta aðeins fyrir sér, m.a. í tengslum við tillögur til Alþingis um að fíra þessum kostnaðarþætti upp um 8%, hvort eitthvað standi til að reyna að gera á hina hliðina. Ég inni eftir því.

Það væri líka fróðlegt að fá hér sem fyrst til umfjöllunar og skoðunar frv. um olíugjald. Ég held að það væri æskilegt að það kæmi fram sem fyrst ef þess er að vænta á annað borð þannig að þingið og nefndir þingsins gætu farið ofan í saumana á þessum málum. Maður vill ekki útiloka það fyrr en maður stendur frammi fyrir því að menn gætu komið sér saman um eitthvert fyrirkomulag sem tengdist þessum breytingum og væri liður í að koma til móts við aðstæður þeirra sem þyngstan bera baggann af þessari skattlagningu, flutningskostnaði og öðru slíku.

Herra forseti. Aftur að upphafinu. Ég vil á hinn bóginn að það komi skýrt fram að við eðlilegar aðstæður og sé eðlilega að því staðið að viðhalda þessum tekjustofnum til samgöngumála ætla ég ekki að fara að gerast sá ómerkingur orða minna á gamals aldri að hlaupast undan merkjum í þeim efnum. Ég styð að sjálfsögðu að Vegagerðin hafi sínar tekjur til sinna þörfu verkefna.