Fjáröflun til vegagerðar, vörugjald af ökutækjum o.fl.

Þriðjudaginn 07. október 2003, kl. 18:29:47 (262)

2003-10-07 18:29:47# 130. lþ. 5.4 fundur 90. mál: #A fjáröflun til vegagerðar, vörugjald af ökutækjum o.fl.# (hækkun þungaskatts og vörugjalds) frv., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 130. lþ.

[18:29]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Fáir hefðu nú trúað því þegar kosningabaráttan fór fram að á fyrsta þing eftir kosningar kæmu stjórnarliðar með skattahækkanir í verulegum mæli. Ég er sannfærður um að litið hefði verið á það sem grófa móðgun ef einhver hefði vogað sér að halda því fram að það fyrsta sem menn gerðu hér á þessu hausti væri að hækka skattana.

Það stutt er síðan kosningabaráttan stóð yfir að það hlýtur að vera eðlilegt að menn ræði málið í samhengi við það sem þá var sagt. En það sem við erum að sjá hér er einn milljarður í hækkuðum gjöldum á flutningafyrirtækin í landinu og á almenning í bílaútgerð heimilanna.

Mér fannst hæstv. fjmrh. einna helst festa sig í bjarghringinn þann að hann hefði ekki staðið sig nógu vel í að hækka þetta á undanförnum árum og nú væri hann að rétta það af. Það hefði eiginlega orðið slys og ekki hefði verið passað upp á þetta. Ég verð að viðurkenna að mér finnst þetta ekki sterk rök. Og þó svo að ég sé einn af þeim sem telji að passa eigi upp á framkvæmdafé til vegagerðar þá get ég ekki séð að rökin eigi að taka þaðan um þessar mundir, einfaldlega vegna þess að hæstv. ríkisstjórn hefur tekið fé til vegagerðar úr ýmsum áttum á undanförnum árum og ekki hvað síst með því að selja ríkisfyrirtæki.

Hæstv. ríkisstjórn setti af stað flýtiframkvæmdir aðallega í vegagerð fyrir kosningarnar. Svo gerist það sem suma grunaði að ekki var hægt að klára þessa peninga, og það vill svo skemmtilega til að einn milljarður gekk af. Nú veit ég ekki hvað á að gera við þann milljarð. Kannski verður honum ráðstafað aftur með einhverjum sérstökum hætti með samþykkt ríkisstjórnarfundar einhvern góðan veðurdag, ég skal ekki segja um það. En hann hefði líka getað gengið til þeirrar upphæðar sem hér á að fá með hækkuðum sköttum. Sem sagt, nú eru 2 milljarðar allt í einu til skiptanna á næsta ári sem ekki voru til skiptanna í vor samkvæmt fyrirætlunum manna, því þá stóð hvorki til að hækka skatta né heldur að klára ekki þá peninga sem ætlaðir voru í flýtiframkvæmdir í vegagerð.

Það er rétt að fara aðeins yfir þær tölur sem voru í gangi þegar menn tóku ákvörðunina um að breyta þungaskattinum og bensíngjaldinu árið 2000, því að þá var þessu kerfi breytt og gjaldið í ríkissjóð lækkað um 10%. Hvers vegna var það gert? Vegna þess að olíuverð hafði hækkað mikið árið á undan, t.d. hafði dísilolía hækkað úr 38 kr. í október 1999 upp í um 50 kr. árið eftir, 30% hækkun. Stjórnvöldum blöskraði þetta en auðvitað græddi ríkissjóður á þessu líka og bætti álögum sínum ofan á þetta, en ákveðið var að lækka gjaldið um 10%. Já, hæst fór olían líklega í einar 50 krónur. En hvað skyldi hún vera í dag? Hún er um 44 kr. Tíu prósent hækkunin sem varð árið 2000 verður núna allt í einu að 8% lækkun. Mér sýnist því að forsendurnar fyrir 10% lækkuninni séu a.m.k. að æðistórum hluta til enn fyrir hendi í dag.

Hækkun þessi á að gefa 400 milljónir í ríkissjóð og vitaskuld mun stór hluti hennar eða töluverður hluti koma frá flutningafyrirtækjunum. Ég tel að eftir þá umræðu sem fram hefur farið um kostnað vegna flutninga á vörum út á landsbyggðina hefði það verið lágmark að menn hefðu getað kynnt hvaða ráðstafanir þeir hygðust hafa til að vinna gegn hinum háa flutningskostnaði um leið og þeir ákváðu að setja fram skattahækkanir. Mér hefði fundist það lágmark. Eða þá að vera heiðarlegir og segja: Við höfum engin ráð við því en við ætlum að hækka. Er það kannski þannig? Mér finnst að skýr svör ættu að vera við þessu.

Þær skattahækkanir sem hér eru á ferðinni ættu helst að valda viðbrögðum hjá þeim sem eiginlega mætti kalla skattasamvisku ríkisstjórnarinnar, ungum þingmönnum Sjálfstfl. sem hafa uppástaðið það í fjölmiðlum og ræðum sínum í aðdraganda kosninga að þeir ætluðu nú aldeilis að sjá til þess að skattar yrðu lækkaðir. Ég vildi gjarnan að einhver þeirra mætti í þessa umræðu og útskýrði hvernig í ósköpunum menn eiga að trúa því, eftir að þetta haust er liðið, að skattalækkanir verði á þessu kjörtímabili, því ef ekki núna þá hvenær? Er ekki einmitt núna möguleiki til skattalækkana? Nú er spennan ekkert svo mikil. Það er von á miklu hærri spennu næstu árin. (Gripið fram í: 20 milljarðar sem ...) Ætla menn virkilega að halda því fram að skattalækkanir ættu þá ekki heima núna? Nei, nú koma menn hinum megin frá, hífa skattana bara upp. Maður gæti ímyndað sér að þetta væri aðferð af einhverju tagi sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson nefndi áðan, að menn ætluðu að búa sér til tekjustofn inn í þessa skattaparadís, að hún væri bara blöff.

Ég er ekki á þeirri skoðun að endilega verði hægt að lækka skatta á síðari hluta þessa kjörtímabils og ég trúi því ekki að menn séu svo óábyrgir við stjórn landsins að þeir muni gera það hvernig sem allt veltur hér í þjóðfélaginu. Ég trúi því ekki. En því miður hafa menn látið frá sér svo hástemmd loforð að erfitt verður fyrir þá að horfast í augu við það að þeir svíki annað hvort þeirra. Það stefnir því miður í það. Annaðhvort verða menn að svíkja loforðin um skattalækkanirnar eða heitstrengingarnar um það að stjórna ríkissjóði skynsamlega og fjármálum þjóðarinnar.

En ég spái því að kosningaloforð ríkisstjórnarinnar verði kannski til umræðu allt þetta kjörtímabil en mest þegar líður á það, undir lokin, og það verði hlutverk einhverrar annarrar ríkisstjórnar að bera þá bagga í hús sem því fylgir að lækka skattana eins og hefur verið lofað. Mér finnst þetta vera skýr vísbending um það sem er að gerast á þessu hausti.

En ég tel að góð rök hafi verið færð fyrir því að menn hefðu ekki átt að fara af stað með þetta mál núna. Ég tel að fjármunir til vegagerðar hafi verið til staðar samkvæmt þeim áætlunum sem um er að ræða og reyndar ýmsir möguleikar til að bæta þar í ef menn vilja. Og það hefði verið lágmark, eins og ég sagði áðan, að menn hefðu kynnt um leið hvaða fyrirætlanir þeir hafa til þess að koma til móts við fólkið á landsbyggðinni hvað varðar kostnað og flutning á vörum út á land.