Fjáröflun til vegagerðar, vörugjald af ökutækjum o.fl.

Þriðjudaginn 07. október 2003, kl. 19:51:34 (277)

2003-10-07 19:51:34# 130. lþ. 5.4 fundur 90. mál: #A fjáröflun til vegagerðar, vörugjald af ökutækjum o.fl.# (hækkun þungaskatts og vörugjalds) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 130. lþ.

[19:51]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hafði orð á því áðan í ræðu minni að seint teldi ég að hv. þm. Pétur H. Blöndal yrði tengdur við skattahækkanir. Þess vegna finnst mér afar sérstætt að að hann skuli vera með böggum hildar yfir því að tilteknir skattstofnar eða tekjustofnar ríkissjóðs hafi ekki náð að fylgja vísitölu neysluverðs.

Ég get ekki betur heyrt, virðulegi forseti, en að hv. þm. sé í reynd að leggja til að verðtryggja beri skattstofna ríkissjóðs. Alveg eins og hægt er að fara í bankann og taka verðtryggð lán, þá sé rétt að verðtryggja tekjustofna ríkissjóðs.

Ég skal alveg, virðulegi forseti, játa að ég er orðinn dálítið hugsi yfir allri þessari umræðu vegna þess að mér finnst eins og öllu sé snúið á haus. Ég held, virðulegi forseti, að það hefðu einhvern tíma þótt tíðindi að hv. þm. Pétur H. Blöndal kæmi fram með þá hugmynd að verðtryggja tekjustofna ríkissjóðs, vegna þess að hv. þm. hefur talað fyrir því oft á tíðum og af spöku viti að það sé ástæða til þess að taka til hjá ríkinu, víða sé hægt að finna möguleika á að spara og jafnvel lækka útgjöld. En að hv. þm. vilji verðtryggja tekjustofna ríkissjóðs finnst mér afar sérstakt, ekki síst í ljósi þess að tekjur ríkissjóðs hafa hækkað um 52--54% undanfarin fjögur ár miðað við fjárlagafrv. áætlað fyrir árið 2004, á meðan vísitala neysluverðs hefur hækkað um 12,4%. Þannig að ríkissjóður hefur ekki bara fengið verðtryggingu heldur nokkurn veginn fjórfalda hækkun miðað við þróun á vísitölu neysluverðs.