Fjáröflun til vegagerðar, vörugjald af ökutækjum o.fl.

Þriðjudaginn 07. október 2003, kl. 19:54:47 (279)

2003-10-07 19:54:47# 130. lþ. 5.4 fundur 90. mál: #A fjáröflun til vegagerðar, vörugjald af ökutækjum o.fl.# (hækkun þungaskatts og vörugjalds) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 130. lþ.

[19:54]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það hljóti að vera næsta skref að verðtryggja persónuafsláttinn (PHB: Hann er verðtryggður.) Ég held að það hljóti að vera næsta skref að hann fylgi vísitöluhækkunum. (PHB: Hann gerir það.) Ég held að það hljóti að vera næsta skref, úr því að hv. þm., sem hér grípur fram í ótt og títt, talar með þeim hætti, að tryggja að öll útgjöld ríkissjóðs séu verðtryggð eins og tekjur. Þá væri eitthvað skynsamlegt, röklegt samhengi í því sem hér er sagt.

Það sem ég, virðulegi forseti, var að benda nokkrum sinnum á áðan og ætti kannski að gera aftur, er að tekjur ríkissjóðs hafa hækkað langt umfram þau viðmiðunarmörk sem lagt er upp með í því frv. sem rætt er hér. (PHB: Hann tapar ekki krónu.) Þess vegna, þar sem aðrir skattar og aðrar tekjur hafa hækkað langt umfram vísitölu neysluverðs, hefði kannski verið ástæða til þess að draga saman seglin annars staðar. Það er það sem ég hef verið að reyna að segja hér, virðulegi forseti, vegna þess að tekjur samkvæmt nýframlögðu fjárlagafrv. benda til hækkunar upp á 52--54% á tekjum ríkissjóðs á fjórum árum. Það hefði kannski mátt draga einhvers staðar saman seglin þar.

Þetta er það, virðulegi forseti, sem ég hef verið er að reyna að draga fram í þessari umræðu, en það eina sem hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur til málanna að leggja, er að verðtryggja frekar þá tekjustofna sem væntanlega hafa ekki fylgt vísitölu neysluverðs. (PHB: Skattalækkun.) Það er kannski það sem hv. þm. á við, þannig að hækkun á tekjum ríkissjóðs væri þá meiri í prósentum talið heldur en hér hefur verið vitnað til.

Ég verð að segja, virðulegi forseti, að öðruvísi mér áður brá.