Fjáröflun til vegagerðar, vörugjald af ökutækjum o.fl.

Þriðjudaginn 07. október 2003, kl. 20:05:34 (281)

2003-10-07 20:05:34# 130. lþ. 5.4 fundur 90. mál: #A fjáröflun til vegagerðar, vörugjald af ökutækjum o.fl.# (hækkun þungaskatts og vörugjalds) frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 130. lþ.

[20:05]

Guðjón A. Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Ég varð eiginlega orðlaus áðan þó ég væri eiginlega ekkert að segja þegar ég hlustaði á hv. formann efh.- og viðskn. Pétur H. Blöndal fara hér upp og nánast leggja til að setja inn verðtryggingu á skattaákvæði. Hann bætti svo um betur og sagði að núverandi skattahækkun væri sennilega skattalækkun og alveg sérstaklega úti á landi og um þau 20% sem legðust kannski á vöruverð á landsbyggðinni sagði hann að það væri nú bara skattalækkun í þessu sem þeir væru að framkvæma núna vegna þess að gleymst hefði að hækka skattana í tvö ár og þar af leiðandi væri þessi skattahækkun skattalækkun.

Ég verð að segja virðulegi forseti, að þetta minnir mig eiginlega á söguna af munknum sem fékk magaþembu og var lagður inn á spítala. Þá var það gert af stríðni að leggja dreng við hliðina á honum í rúmið. Síðan var hleypt af honum loftinu og magaþemban hvarf. Honum var svo talin trú um að gerst hefði kraftaverk og hann hefði eignast son. Þetta líkist eiginlega því sem ég heyrði hv. þm. Pétur H. Blöndal fara hér með áðan þegar hann reyndi að telja okkur trú um að skattahækkun væri skattalækkun og kæmi sérstaklega vel niður á landsbyggðinni vegna þess að þungaskatturinn kæmi svoleiðis út þar.