Úthlutunarreglur úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga

Miðvikudaginn 08. október 2003, kl. 13:47:30 (288)

2003-10-08 13:47:30# 130. lþ. 6.95 fundur 65#B úthlutunarreglur úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga# (umræður utan dagskrár), JGunn
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 130. lþ.

[13:47]

Jón Gunnarsson:

Herra forseti. Hér er til umræðu Jöfnunarsjóður sveitarfélaga og málshefjandi, hv. þm. Jón Bjarnason, hefur af því nokkrar áhyggjur hvernig reglum er háttað um úthlutun á fjármunum úr sjóðnum. Ég verð að segja eins og er að ég deili þeim áhyggjum með honum. Sveitarstjórnarmenn sem komið hafa til fjárln. hafa lýst því yfir við okkur að þeir skilji ekki þær reglur sem gilda um jöfnunaraðgerðir jöfnunarsjóðs. Þeir eru þó allir á þeirri skoðun að jöfnunarhlutverk sjóðsins sé mjög mikilvægt. Það virðist vera eins og einhver misbrestur hafi orðið á því að kynna þessar breytingar sem urðu á reglugerð um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, þ.e. reglugerð frá 12. febr. sl. Sveitarstjórnarmenn virðast ekki gera sér grein fyrir í hverju þær breytingar eru helst fólgnar.

Jöfnunarframlög úr sjóðnum skiptast í tvennt. Annars vegar er það tekjujöfnunarframlagið sem ég held að allir skilji og hins vegar er þetta nýja útgjaldajöfnunarframlag. Útgjaldajöfnunarframlaginu skal varið til að mæta mismunandi útgjaldaþörf sveitarfélaga á grundvelli stærðarhagkvæmni og tekna þeirra að teknu tilliti til þeirra þátta sem áhrif hafa á útgjaldaþörf svo sem íbúafjölda, fjarlægð, skólaakstur í dreifbýli o.fl. eins og segir í lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Ekki kannski mjög skýrt og maður fer í reglugerðina til að sjá hvernig það á að líta út vegna þess að það á að kveða nánar á um þetta í reglugerð en það er kannski fyrst þegar maður les reglugerðina sem maður verður endanlega ruglaður á því hvernig á að útdeila þessu nýja framlagi, þessu útgjaldajöfnunarframlagi. Ég held að það sé forgangsverkefni hjá hæstv. félmrh. að láta fara fram gagngera skoðun á þeim breytingum sem nýja reglugerðin um jöfnunarsjóð hefur haft í för með sér fyrir sveitarfélögin vítt og breitt um landið. Það er alveg ljóst að margir sveitarstjórnarmenn líta þannig á og halda að breytingarnar á reglugerðum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga séu að mestu leyti gerðar til þess að neyða smærri sveitarfélög í sameiningu við þau stærri.