Úthlutunarreglur úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga

Miðvikudaginn 08. október 2003, kl. 13:49:55 (289)

2003-10-08 13:49:55# 130. lþ. 6.95 fundur 65#B úthlutunarreglur úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga# (umræður utan dagskrár), EKG
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 130. lþ.

[13:49]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Það er mjög eðlilegt að menn ræði málefni Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Hlutverk hans hefur verið að vaxa á undanförnum árum og í hvert skipti sem við höfum tekið um það ákvarðanir á Alþingi að færa verkefni til sveitarfélaga frá ríkinu hefur hlutverk jöfnunarsjóðsins þar með verið aukið. Þetta átti við t.d. þegar við tókum um það ákvörðun að færa verkefni sem lúta að skólamálum í grunnskólunum til sveitarfélaganna, þá þurftum við að auka hlutverk jöfnunarsjóðsins einfaldlega vegna þess að það þurfti að koma til móts við mismunandi þarfir.

Hlutverk jöfnunarsjóðs sést líka á því að ef við skoðum fjárlagafrv. fyrir næsta ár, þá er gert ráð fyrir því að lögbundið framlag ríkisins til sjóðsins verði samkvæmt frv. um 6,6 milljarðar kr. Hér er því um að ræða gríðarlega miklar upphæðir og ljóst mál að fyrir einstök sveitarfélög skipta jöfnunarsjóðsframlögin mjög miklu. Þess vegna munu allar breytingar sem gerðar eru á jöfnunarsjóðnum og reglunum í kringum það hafa áhrif á sveitarfélögin þó með mismunandi hætti eftir því sem breytingarnar gefa að sjálfsögðu tilefni til.

Ég held hins vegar að mjög mikilvægt sé í þessu sambandi vegna þess að við erum núna að ræða þær breytingar sem hér hafa verið til umræðu, að menn átti sig á því að það verður að skoða þetta líka í því samhengi sem hæstv. félmrh. vakti athygli á og það er að útgjaldajöfnunarframlögin eru núna á þessu ári verulega minni en þau voru á árinu 2002. Það var einfaldlega þannig að forsendur sköpuðust vegna fyrninga á árinu 2001 til að auka þessi framlög á árinu 2002. Því höfðu menn til ráðstöfunar um hálfum milljarði meira. Nú hafa menn sem sagt til útgjaldajöfnunarframlaganna um það bil hálfum milljarði minna til ráðstöfunar og það tekur auðvitað einhvers staðar í í samanburði við það sem menn höfðu á árinu á undan.

Ég held þess vegna, virðulegi forseti, þó það sé sjálfsagt að við reynum að skoða og átta okkur á áhrifum þessara breytinga, að menn verði jafnframt að gera sér grein fyrir að þær breytingar skýra ekki nema að nokkru leyti áhrifin á einstök sveitarfélög. Menn verða líka að hafa í huga við þessa skoðun að heildarframlögin til útgjaldajöfnunarinnar eru einfaldlega minni af þeim ástæðum sem hér hafa verið raktar.