Úthlutunarreglur úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga

Miðvikudaginn 08. október 2003, kl. 13:52:29 (290)

2003-10-08 13:52:29# 130. lþ. 6.95 fundur 65#B úthlutunarreglur úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga# (umræður utan dagskrár), SigurjÞ
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 130. lþ.

[13:52]

Sigurjón Þórðarson:

Virðulegi forseti. Jöfnunarsjóður sveitarfélaga gegnir veigamiklu hlutverki varðandi fjármögnun minni og tekjulægri sveitarfélaga. Öllum ætti einnig að vera ljóst að staða sveitarfélaga landsins er bágborin. Þær breytingar sem urðu á úthlutunarreglum sjóðsins leiða oft til þess að verið er að færa fé á milli sveitarfélaga oftar frá hinum fámennari til hina fjölmennari. Breytingar á reglum jöfnunarsjóðsins leiða til þess að framlög til millistórra sveitarfélaga eða sveitarfélaga á bilinu 2.000--21.000 íbúa eru aukin. Þessi auknu fjárframlög virðast vera borin að einhverju leyti uppi af skerðingu til fámennari sveitarfélaganna. Ég tel að þau sveitarfélög sem fá aukið fé samkvæmt hinum nýju úthlutunarreglum séu ekki ofhaldin miðað við fjárhagsstöðu sveitarfélaga landsins og þeim veiti ekki af auknu fjármagni. En það má ekki verða til þess að verið sé að klípa af fámennari sveitarfélögum sem eru síður en svo fjársterkari en þau sem verið er að gera betur við í þetta sinn.

Við í Frjálslynda flokknum leggjum til að sveitarfélög við sjávarsíðuna fái á ný atvinnuréttindi. Þá muni þeim vegna betur og eiga auðveldara með að fjármagna rekstur sinn. Frjálslyndi flokkurinn leggur einnig til að auknu fjármagni verði varið til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Peningunum væri betur varið í það en mörg önnur gæluverkefni ríkisstjórnarinnar, svo sem að verja 170 millj. til að loka sláturhúsum á landsbyggðinni.