Úthlutunarreglur úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga

Miðvikudaginn 08. október 2003, kl. 13:59:29 (293)

2003-10-08 13:59:29# 130. lþ. 6.95 fundur 65#B úthlutunarreglur úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga# (umræður utan dagskrár), KLM
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 130. lþ.

[13:59]

Kristján L. Möller:

Virðulegi forseti. Það er rétt sem hér hefur komið fram að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga gegnir veigamiklu hlutverki í tekjuframlögum til sveitarfélaga og sjá til reksturs þeirra. Þess vegna er það að þegar einhverjar breytingar hafa verið gerðar á úthlutunarreglum, þá kemur það misjafnlega illa við. Sem dæmi get ég tekið að í Öxarfjarðarhreppi er gert ráð fyrir að tekjuframlagið frá jöfnunarsjóði skerðist um hvorki meira né minna en 17 millj. kr. Jöfnunarsjóðurinn hefur verið helmingur af tekjum þess sveitarfélags og sveitarfélagið rekið á núlli. Þegar framlag minnkar svo mikið sem raun ber vitni frá jöfnunarsjóði, þá verður náttúrlega halli og ekkert svigrúm til að gera eitt eða neitt. Þetta kemur sér illa eins og ég sagði við sveitarfélög og sveitarstjórnarmenn eru sífellt að ræða þessi mál meira og meira við þingmenn. Þegar maður skoðar þetta eins og þetta lítur út getur maður séð skerðingar eins og hjá sveitarfélaginu Skagafirði allt að 90 millj. ef þetta gengur eftir. Þetta kemur sér náttúrlega mjög illa. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. félmrh. út í það hvort gripið verði til þess ráðs að spýta í eða setja inn í þennan pott 700--900 milljónir eins og gert hefur verið undanfarin ár beint frá ríkissjóði. Telja menn einmitt nú að mikil þörf sé á því m.a. vegna þess að á Alþingi var breytt lögum um einkarekstur og einkahlutafélög sem gerir það að verkum að sveitarfélög tapa mjög miklum tekjum bara vegna þessarar sjálfsögðu breytingar að gefa mönnum kost á að hafa rekstur sinn í einkahlutafélögum. Og það verða þá ekki útsvarstekjur sem sveitarfélögin fá í staðinn.

Verður bætt í þennan pott, hæstv. félmrh.? Og svo má eiginlega segja að enn einu sinni séum við að ræða um sífellt aukin verkefni á hendur sveitarfélaga frá hinu háa Alþingi án þess að tekjupóstar komi með og síðan munum við ábyggilega þurfa að hlusta á það á næstunni að sveitarfélögin verði skömmuð fyrir það að fara fram úr áætlun eða að skapa þenslu í landinu.