Úthlutunarreglur úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga

Miðvikudaginn 08. október 2003, kl. 14:07:05 (296)

2003-10-08 14:07:05# 130. lþ. 6.95 fundur 65#B úthlutunarreglur úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga# (umræður utan dagskrár), BJJ
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 130. lþ.

[14:07]

Birkir J. Jónsson:

Hæstv. forseti. Jöfnunarsjóður sveitarfélaga gegnir veigamiklu hlutverki í tekjujöfnun sveitarfélaga í landinu. Í gegnum árin hefur sjóðurinn haft sérstaklega mikið að segja fyrir minni sveitarfélög landsins og því haft gríðarlega þýðingu í byggðalegu tilliti. Í þeim tillögum sem ráðherraskipuð nefnd lagði til um endurskoðun á lögum um reglur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga kom m.a. fram að einfalda ætti aðferðir við útreikning framlaga jöfnunarsjóðs sem og að tryggja réttláta jöfnun að teknu tilliti til tekjumöguleika sveitarfélaga og útgjaldaþátta þeirra. Sérstaklega er horft til þess að sveitarfélög eigi ekki síður að njóta ávinnings fyrir hagkvæmni í rekstri.

Markmiðin með setningu á þessum reglum eru því æskileg og eiga að samræmast þeim veruleika sem við búum við í dag, þ.e. stækkun sveitarfélaga og breytingar á tekjustofnum þeirra.

Hæstv. forseti. Hins vegar hefur borið á því að undanförnu að útgjaldajöfnunarframlög einstakra sveitarfélaga hafa skerst verulega eftir breytingu á úthlutunarreglum jöfnunarsjóðsins. Þó ber að leggja áherslu á að framlögin úr jöfnunarsjóði voru óvenjuhá á árinu 2002 og því set ég spurningarmerki við það hvort rétt sé að bera saman árin 2002 og 2003 í þessu samhengi. Við hljótum jafnframt að sýna því skilning að umræddar skerðingar bitna greinilega í einhverjum tilvikum harkalega á minni og tekjulágum sveitarfélögum og er óviðunandi að þau sveitarfélög, tekjulág sveitarfélög, þurfi að búa við slíkt til langframa. Rétt er þó að benda á að skerðingin er í langflestum tilvikum hjá tekjuháum sveitarfélögum.

Ég vil hins vegar leggja áherslu á að mjög takmörkuð reynsla er komin á hinar nýju reglur um úthlutanir jöfnunarsjóðs og ég er þess sannfærður og tek heils hugar undir orð hæstv. félmrh. að ráðgjafarnefnd jöfnunarsjóðsins mun trúlega óska eftir breytingum á reglum sjóðsins ef ljóst þykir að þær leiði til ósanngjarnrar niðurstöðu.