Úthlutunarreglur úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga

Miðvikudaginn 08. október 2003, kl. 14:09:18 (297)

2003-10-08 14:09:18# 130. lþ. 6.95 fundur 65#B úthlutunarreglur úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga# (umræður utan dagskrár), Flm. JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 130. lþ.

[14:09]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ég þakka þessa umræðu og þakka hæstv. félmrh. fyrir það sem hann hefur lagt inn í umræðuna þó að mér finnist það of dapurt. Mér sýnist að hæstv. ráðherra annaðhvort viti ekki eða geri sér ekki grein fyrir alvarleika þess sem við stöndum frammi fyrir.

Það er alveg hárrétt hjá hæstv. ráðherra að þessar breytingar á reglugerð hafa leitt til þess að framlög úr jöfnunarsjóði til þeirra sveitarfélaga sem hæstar hafa tekjur hafa skerst. En þau dæmi sem ég vitnaði hér til voru ekki dæmi um tekjuhá sveitarfélög. Þetta voru dæmi um afar tekjulág sveitarfélög. Tekjur þeirra voru að skerðast kannski frá 10% og upp í 40% og er ég þar ekki að miða við síðasta ár heldur lít ég til þriggja til fjögurra eða fimm ára þar á undan. Ég held að hver maður sem setur sig inn í málið ætti að geta séð að þetta er staðreynd. Ég hefði viljað sjá, og vil ítreka það við hæstv. félmrh., að hann beiti sér nú í raun, skoði þessi mál og taki á þeim því fyrir einstaka sveitarfélög sem þarna er um að ræða er staðan afar alvarleg og þolir enga bið. Ég krefst þess raunar, herra forseti, að hæstv. ráðherra taki á þessum málum nú þegar hvað varðar endurskoðun á þessum reglum varðandi tekjulægstu sveitarfélögin sem ég hef hér tekið sem dæmi.

Varðandi kynninguna þá hef ég heyrt það frá þeim sveitarstjórnarmönnum sem ég hef heyrt í að kynningin hafi algerlega verið í skötulíki og að þetta hafi komið mörgum þeirra mjög á óvart. Vel má vera að þetta hafi verið kynnt með ,,PowerPoint``-sýningu, eins og einhver sagði við mig, á einhverri hátíðarsamkomu þar sem hann var ekki við. En svona stórmál þarf náttúrlega ítarlega kynningu áður en það er sett fram. Ég ítreka það að hér er svo (Forseti hringir.) alvarlegt mál á ferðinni gagnvart þeim sveitarfélögum sem eiga í hlut að engin bið má vera á úrlausn.