Úthlutunarreglur úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga

Miðvikudaginn 08. október 2003, kl. 14:11:49 (298)

2003-10-08 14:11:49# 130. lþ. 6.95 fundur 65#B úthlutunarreglur úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga# (umræður utan dagskrár), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 130. lþ.

[14:11]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon):

Herra forseti. Á þessu ári er gert ráð fyrir að framlög jöfnunarsjóðs til sveitarfélaganna verði hátt í 10 milljarðar kr. Fullyrða má að án þessara framlaga væri enginn fjárhagslegur grundvöllur undir rekstri margra sveitarfélaga, einkum á landsbyggðinni. Sjóðurinn hefur þannig mikla þýðingu fyrir byggðamálin í landinu.

Varðandi viðbrögð mín við kvörtunum sveitarfélaga vegna lægri framlaga vil ég ítreka og leggja sérstaka áherslu á að framlög sjóðsins voru óvenjuhá í fyrra og því verður að fara varlega í allan samanburð.

Herra forseti. Því er haldið fram í þessari umræðu að breytingar á úthlutunarreglum jöfnunarsjóðs hafi verið fyrirvaralausar. Það er ekki rétt. Fjárhagsleg áhrif breytinga á reglum sjóðsins eru í fullu samræmi við tillögur endurskoðunarnefndarinnar þar sem sveitarstjórnarmenn áttu sannarlega sína fulltrúa. Ég vil líka taka fram að tillögur nefndarinnar fólu alls ekki í sér róttækar breytingar á uppbyggingu og gerð framlaga Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

Varðandi einstök sveitarfélög geta margir þættir haft áhrif á samanburð. Það má m.a. nefna mannfjöldabreytingar sem haft geta áhrif á niðurstöðu milli ára, t.d. lækkað framlög til sveitarfélaga þar sem börnum á skólaskyldualdri fækkar og þetta getur leitt til þess að samanburður við fyrri ár verður óhagstæður.

Herra forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson spyr hvaða sveitarfélög verða fyrir skerðingu, svo sem vegna skólaaksturs. Ég ætla ekki að tíunda hér nákvæmlega hver þau eru. En sem dæmi um stöðu þeirra sveitarfélaga sem hafa gert athugasemdir við framlög sjóðsins má nefna að tekjur þeirra á hvern íbúa eru á bilinu 21--67% yfir meðallagi.

Tekjustofnar sveitarfélaganna voru nýlega hækkaðir nokkuð á grundvelli tillagna nefndar sem við höfum hér fjallað um. Nettóhækkun tekna allra sveitarfélaga vegna þessa er tæpir 4 milljarðar á ári. Útgjöld sveitarfélaganna vaxa hins vegar stöðugt sem vissulega kallar á reglulega endurskoðun tekjustofna sem sveitarfélögin hafa samkvæmt lögum.

Herra forseti. Að lokum vil ég nefna og svara með því spurningum um hvort bæta eigi í jöfnunarsjóðinn fjármunum nú að í tengslum við fyrirhugað átak í sameiningarmálum sveitarfélaga mun fara fram ítarleg athugun á hugsanlegri tilfærslu verkefna milli ríkis og sveitarfélaga og aðlögun tekjustofna sveitarfélaganna að nýrri sveitarfélagaskipan. Ég tel eðlilegt að beina frekari umræðu um fjármál sveitarfélaganna sem mest í þann farveg.