Aðlögunarstuðningur við lífrænan landbúnað

Miðvikudaginn 08. október 2003, kl. 14:18:31 (300)

2003-10-08 14:18:31# 130. lþ. 7.1 fundur 52. mál: #A aðlögunarstuðningur við lífrænan landbúnað# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 130. lþ.

[14:18]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Hvað þessari ályktun Alþingis líður þá er einfalt að segja að hún hefur borist landbrn. og er okkar vinnuplagg sem slík við það sem fram undan er og höfð til hliðsjónar.

Ef ég ræði þetta mál aðeins hér þá vil ég segja, hæstv. forseti, að það eru engin bein framlög sem kalla mætti aðlögunarstuðning til lífræns landbúnaðar hér á landi að frátöldum stuðningi við endurræktun lands, þar með talið garðland vegna aðlögunar að lífrænum búskap og þar með talin ylrækt. Hámarksframlag er 30 þús. kr. á hvern hektara og 300 kr. á fermetra í gróðurhúsi. Framlögin eru veitt til sömu endurræktunar tvö ár í röð. Framlög þessi eru veitt samkvæmt samningi um þróunarverkefni á lögbýlum í samræmi við ákvæði búnaðarlaga.

Verkefnið Áform -- átaksverkefni sem starfaði á árunum 1995--2002 veitti frumkvöðlastarfi á þessu sviði margháttaðan stuðning og styrkti einnig rannsóknir og tilraunir í lífrænni ræktun. M.a. studdi verkefnið nokkra bændur í Mýrdal myndarlega á fyrstu árum þeirra í lífrænni framleiðslu. Sú tilraun hefur nú skilað þeirri reynslu að fóðuröflun í búfjárframleiðslu sem margir álitu vera nær óyfirstíganlegan þröskuld hér á landi, virðist ekki vera vandamál, a.m.k. ekki um sunnanvert landið. Einn lífrænn ylræktarbóndi hefur náð ágætum árangri í sinni ræktun, m.a. með myndarlegum stuðningi Áforms.

Á sviði lífrænnar garðyrkju hefur einnig náðst góður árangur. Allt veltur þetta á frumkvæði þeirra einstaklinga sem í hlut eiga og er gaman til þess að vita að í verslunum hér á höfuðborgarsvæðinu fást nú lífrænt ræktaðar gulrætur sem framleiddar eru norður undir heimskautsbaug og þykja mikið lostæti.

Þá ber þess að geta að Áform beitti sér fyrir stofnun lífrænnar miðstöðvar við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri sem ætlað er að verða miðstöð kennslu og rannsókna á þessu sviði og tryggði jafnframt fjármagn til reksturs stöðvarinnar til loka næsta árs. Þannig hefur starf frumkvöðlanna í þessari grein skilað mikilvægum árangri sem skýrir myndina og auðveldar ákvarðanatöku um framhaldið.

Það er eins með lífræna framleiðslu og aðra, hún þarf að vera efnahagslega sjálfbær og til þess að dæmið gangi upp þarf að vera eftirspurn eftir vörunni. Hvað lífræna ylrækt og lífræna garðyrkju varðar virðist næg eftirspurn vera fyrir hendi og ber að fagna því.

Hins vegar er það svo að aðeins hluti þeirrar lífrænu mjólkur sem framleidd er í landinu selst sem slík þrátt fyrir að myndarlega sé að framleiðslunni staðið af hálfu mjólkuriðnaðarins. Ekki hefur tekist með viðunandi hætti að markaðssetja það lífræna dilkakjöt sem hér er framleitt. Að hluta til er ástæðan sú að afurðastöðvarnar hafa ekki verið reiðubúnar til að leggja í þann kostnað sem því fylgir að markaðssetja lífræna dilkakjötið sérstaklega. Meginástæðan er hins vegar sú að mínum dómi, bæði hvað varðar mjólkina og kindakjötið, að neytendur finna ekki það mikinn mun á lífrænu vörunni og þeirri hefðbundnu að þeir séu reiðubúnir að greiða hærra verð fyrir hana. Mér er kunnugt um einn nautgripabónda sem lagði í umtalsverðan kostnað og fyrirhöfn við að framleiða lífrænt nautakjöt en þegar til kastanna kom fannst enginn markaður fyrir vöruna og var hún á endanum seld sem hefðbundið nautakjöt.

Íslenskar landbúnaðarafurðir eru í hágæðaflokki hvað bragð, hreinleika og heilbrigði varðar. Ég vil segja hér, hæstv. forseti, að sé lífrænt í A-flokki+ þá eru íslenskar landbúnaðarafurðir í A-flokki. Þannig að neytandinn hér gerir ekki mikinn greinarmun þarna. Hann þekkir þær afbragðsvörur sem á markaðnum eru. Og við sjáum það best hvernig við náum háu verði t.d. á lambakjöti og erum núna komnir inn í dýrar búðir víða í heiminum með fleira en lambakjötið, sem sýnir að neytendur heimsins líta á okkar vörur sem mjög sérstakar og góðar vörur og vilja borga fyrir þær hátt verð og telja þær mjög örugg matvæli. Þetta er auðvitað hin mikla sérstaða íslensks landbúnaðar.

Það má líka segja um það að Ísland getur áreiðanlega fyrst allra þjóða orðið vistvænt land, sjálfbært land sem getur markaðssett sig sem slíkt, bæði út af stefnunni hvað sjávarútveginn varðar og þeim gæðavörum sem þaðan koma og ekki síður hversu landið sjálft er frábært og við eigum góða bændur sem framleiða vörur sem eru í besta skala hvað matvæli varðar í heiminum.

Hæstv. forseti. Mér hefur borist þessi ályktun frá þinginu og ég hef hana auðvitað sem vinnugagn í landbrn. og að vissu marki sem leiðarljós.