Ferðakostnaður vegna tannréttinga

Miðvikudaginn 08. október 2003, kl. 14:36:08 (307)

2003-10-08 14:36:08# 130. lþ. 7.2 fundur 53. mál: #A ferðakostnaður vegna tannréttinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 130. lþ.

[14:36]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Hv. 10. þm. Norðaust. hefur spurt mig spurninga um ferðakostnað vegna tannréttinga í þremur liðum:

,,1. Hefur tekist að ráða tannréttingasérfræðinga um allt land?``

Svarið við því er að allir tannréttingasérfræðingar á Íslandi starfa á eigin vegum á einkareknum stofum. Það er því alfarið undir þeim sjálfum komið hvar þeir starfa. Þeir hafa ekki verið ráðnir hjá heilsugæslustöðvum frekar en almennir tannlæknar undanfarin ár.

Nú eru aðeins níu tannréttingasérfræðingar starfandi hér á landi. Þeir eru allir búsettir á höfuðborgarsvæðinu og reyndar starfa þeir ekki allir við tannréttingar í fullu starfi. Því hefur eftirspurn eftir þjónustu tannréttingasérfræðinga verið meiri en framboðið að undanförnu. Vitað er þó að nokkrir stunda nú sérnám í tannréttingum erlendis.

Sumir tannréttingasérfræðingar hafa farið reglulega út á landsbyggðina og þjónað ákveðnum svæðum. Á Austurlandi hafði tannréttingasérfræðingur komið reglulega og þjónað svæðinu til fjölda ára en sl. vetur hætti hann ferðum sínum, m.a. vegna aldurs. Ráðuneytið fór þess á leit við stjórn Tannréttingafélags Íslands að hún kannaði hvort einhver félagsmanna þeirra væri tilbúinn að fara á Austurland en fékk að lokum þau svör að enginn félagsmanna teldi sig hafa tök á að sinna þessari þjónustu á Austurlandi.

,,2. Ef ekki, mun ráðherra beina þeim tilmælum til tryggingaráðs að það endurskoði reglur um ferðakostnað vegna sérfræðiþjónustu tannréttingalækna?``

Ráðuneytið hefur nú ritað tryggingaráði og farið þess á leit að það endurskoði reglur um ferðakostnað með tilliti til þess að þeir sem þurfa á tannréttingum að halda verði jafnsettir á landsbyggðinni með tilliti til endurgreiðslu ferðakostnaðar. Ferðareglur TR hafa verið einskorðaðar við tiltekna alvarlega sjúkdóma en eins og ætíð er er vandinn sá hvar setja eigi mörkin.

,,3. Mun ráðherra tryggja að fjármagn fáist til að auka þátt Tryggingastofnunar í ferðakostnaði vegna tannréttinga barna og unglinga sem búa á svæðum þar sem enga tannréttingaþjónustu er að fá?``

Svarið er já, ég mun leita eftir fjárheimildum til að mæta auknum kostnaði við endurgreiðslu ferðakostnaðar hjá Tryggingastofnun ríkisins ef viðbrögð við erindi ráðuneytisins verða jákvæð.