Ferðakostnaður vegna tannréttinga

Miðvikudaginn 08. október 2003, kl. 14:40:25 (309)

2003-10-08 14:40:25# 130. lþ. 7.2 fundur 53. mál: #A ferðakostnaður vegna tannréttinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 130. lþ.

[14:40]

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman):

Herra forseti. Það var mjög ánægjulegt að heyra svar hæstv. ráðherra við þessum fyrirspurnum og ég ætla að vona að tryggingaráð taki tilmælin til greina og vinni hið snarasta að því að breyta reglunum. Og eins að það komi þá það mikið fjármagn til viðbótar til Tryggingastofnunar að hægt sé að endurgreiða hluta þessa kostnaðar varðandi ferðir.

Þetta er, eins og ég sagði, mikið óréttlæti. Nógur er kostnaðurinn samt. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að heilbrrn. ræður ekki tannréttingasérfræðinga, þeir vinna á eigin vegum, en það þarf samt sem áður oft að hlutast til um að fá sérfræðinga út um allt land, t.d. með farþjónustu eins og verið hefur. Fyrrnefndur tannréttingasérfræðingur sinnti einmitt Austurlandi með því að koma þangað reglulega. Oft þarf tilstuðlan ráðuneytisins til að koma á sérfræðiþjónustu af ýmsum toga til þess að sinna landsbyggðinni.

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að bregðast svona við og svo tek ég undir ábendingar hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur um að einnig þyrfti að skoða kostnað varðandi almennar tannréttingar. Hann er mjög hár, sérstaklega hjá fjölskyldum sem eru með börn þar sem tannskekkja liggur í ættum. Hjá mörgum fjölskyldum eru tannréttingar eiginlegur hluti af uppeldi barnanna þar.