Ferðakostnaður vegna tannréttinga

Miðvikudaginn 08. október 2003, kl. 14:42:32 (310)

2003-10-08 14:42:32# 130. lþ. 7.2 fundur 53. mál: #A ferðakostnaður vegna tannréttinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 130. lþ.

[14:42]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég vil taka það fram að að sjálfsögðu munum við í ráðuneytinu halda áfram að skoða hvort það eru möguleikar á að fá tannréttingasérfræðinga út á landsbyggðina. Auðvitað væri það æskilegast. En ég endurtek að við höfum sent erindi um endurgreiðslu ferðakostnaðar til tryggingaráðs. Ég geri mér alveg grein fyrir miklum kostnaði við tannréttingar hjá börnum og unglingum. Það hefur ekki verið komið til móts við nema verstu tilfellin sem eru mjög dýr. Nú mun taxti tannréttingasérfræðinga vera misjafn en ástandið er þannig, eins og ég tók fram í ræðu minni upphaflega, að eftirspurnin er meiri en framboðið eins og stendur. Sem betur fer eru nokkrir í námi erlendis í þessari sérfræðigrein.

En ég endurtek að við munum fylgja þessu máli eftir þannig að það ástand sem nú hefur verið haldi ekki áfram.