Hjúkrunarrými á höfuðborgarsvæðinu

Miðvikudaginn 08. október 2003, kl. 14:51:33 (313)

2003-10-08 14:51:33# 130. lþ. 7.3 fundur 72. mál: #A hjúkrunarrými á höfuðborgarsvæðinu# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 130. lþ.

[14:51]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Það er ákveðin þróun sem á sér stað hvað varðar þjónustu og umönnun aldraðra og fatlaðra bæði hér á landi og í nágrannalöndum okkar, alla vega í þeim ríkjum sem einhver velmegun er í, þeim ríkjum sem eiga að geta sinnt þessum aldurshópi og fötluðum sómasamlega. Þar af leiðandi þykir okkur ekkert sjálfsagt í dag að þeir sem eldast fari á dvalarheimili. Gerð er krafa um að fá heimahjúkrun og heimaþjónustu eins lengi og unnt er og því eru þeir einstaklingar sem nú vistast inni á stofnun orðnir miklu veikari og verr haldnir en áður. Því er eðlilegt að hlutfall á milli dvalarheimilisplássa og hjúkrunarrýma breytist og því nauðsynlegt að endurmeta þörfina á hjúkrunarplássum.