Hjúkrunarrými á höfuðborgarsvæðinu

Miðvikudaginn 08. október 2003, kl. 14:54:23 (315)

2003-10-08 14:54:23# 130. lþ. 7.3 fundur 72. mál: #A hjúkrunarrými á höfuðborgarsvæðinu# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., HHj
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 130. lþ.

[14:54]

Helgi Hjörvar:

Virðulegur forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda fyrir að vekja athygli á þeim brýnu úrlausnarefnum sem uppi eru í málefnum aldraðra, einkum hér í Reykjavík og nágrannasveitarfélögunum vegna þessara löngu biðlista. Það kemur fram í svari hæstv. ráðherra, sem ég þakka sömuleiðis fyrir, að þeir sem eru í brýnni þörf eru nú á fjórða hundrað en hafa lengstum um margra ára skeið verið um 200. Ég held að við sjáum ekki fram undan nægileg úrræði til þess að þetta megi teljast viðunandi.

Ég vil þess vegna spyrja ráðherrann í ljósi þess að í þjónustuíbúðum í Reykjavík og á ýmsum stofnunum fyrir aldraða eru mjög margir sem eru á þessum biðlistum í brýnni þörf eftir hjúkrunarheimilum, hvort hann telji koma til greina að breyta stofnunum eða þjónustuíbúðum að hluta eða í heild í hjúkrunarrými til þess að þar megi með skjótum og öruggum hætti ná nokkrum árangri í að vinna á þessum biðlistum.