Hjúkrunarrými á höfuðborgarsvæðinu

Miðvikudaginn 08. október 2003, kl. 14:55:41 (316)

2003-10-08 14:55:41# 130. lþ. 7.3 fundur 72. mál: #A hjúkrunarrými á höfuðborgarsvæðinu# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 130. lþ.

[14:55]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og það er greinilegt að það er verið að gera ýmislegt þótt það dugi því miður ekki til. Fram kom hjá hæstv. ráðherra að það eru 463 sem bíða eftir hjúkrunarrýmum og þar af 390 í mjög brýnni þörf og við sjáum fram á að þau rými sem eru væntanleg muni ekki leysa þennan vanda. Í ljósi þess að stóru heimilin eru að fækka plássum þá þarf líka að skoða þetta allt í samhengi og auðvitað þörfina fyrir dvalarheimilin í samhengi við þörfina fyrir hjúkrunarheimilin, eins og komið var inn á hér áðan.

Það er auðvitað ólíðandi að menn þurfi að bíða hér í yfir jafnvel tvö ár eftir hjúkrunarrýmum og það er náttúrlega verið að ræna þetta fólk mjög miklum lífsgæðum.

Mig langar einnig til að vísa spurningu til hæstv. ráðherra vegna þessa vanda sem við stöndum frammi fyrir og þeirrar miklu þarfar sem er fyrir hjúkrunarrými hér á höfuðborgarsvæðinu, hvort ekki komi til greina að verða við óskum t.d. Hrafnistu sem ég veit að hefur farið fram á það ítrekað undanfarin tíu ár að fá að bæta við hjá sér 90 hjúkrunarrýmum en ekki fengið heimild til þess. Það er mjög hagkvæm framkvæmd því að þar er til staðar öll yfirbygging og þjónusta við heimilin sem þar eru. Hvers vegna er ekki tekin sú ákvörðun að heimila Hrafnistu að bæta við þessum 90 plássum til að leysa þennan mikla vanda sem við stöndum frammi fyrir, því að 463 bíða, 390 í brýnni þörf og við erum ekki að bæta við nema eitthvað á annað hundrað rýmum á næstu tveimur árum? Ég held því að þarna þurfi verulega að taka á. Þótt vel sé staðið að verki svo langt sem það nær, þá dugar það hvergi til.