Kynning á sjúklingatryggingu

Miðvikudaginn 08. október 2003, kl. 15:00:30 (318)

2003-10-08 15:00:30# 130. lþ. 7.4 fundur 73. mál: #A kynning á sjúklingatryggingu# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 130. lþ.

[15:00]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Árið 2000 voru samþykkt á Alþingi lög um sjúklingatryggingu, sem var veruleg réttarbót fyrir þá sjúklinga sem verða fyrir læknamistökum, líkamlegu eða geðrænu tjóni í tengslum við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð, og bættu mjög gamla ákvæðið í sjúkratryggingum almannatrygginga.

Þau lög tóku gildi 1. janúar 2001, fyrir tveimur og hálfu ári. Ég hef persónulega orðið tilfinnanlega vör við að sjúklingar sem hafa orðið fyrir mistökum vita ekki um rétt sinn samkvæmt þeim lögum og hafa heilbrigðisstarfsmenn ekki upplýst þá um hann. Það kom mér enn meira á óvart þegar ég átti þess kost að ræða sjúklingatrygginguna við hóp heilbrigðisstarfsmanna, sem margir hverjir eru í stjórnunarstöðum á heilbrigðisstofnunum en ég átti kost á að ræða við þá nú í haust, að þeim höfðu ekki verið kynnt þessi lög og réttindi sem þeim fylgja.

Þessar staðreyndir eru ástæðan fyrir því að ég spyr hæstv. ráðherra um hvernig kynning á þessum lögum og réttindum samkvæmt þeim hafi farið fram annars vegar gagnvart heilbrigðisstarfsfólki og svo almenningi, þ.e. sjúklingum.

Reyndar hefur ekki algjörlega verið þagað um sjúklingatrygginguna því að hennar er getið á vef Tryggingastofnunar í nýlegum pistli þar sem kemur fram að 22 hafi tilkynnt sjúklingatjón fyrsta árið sem lögin voru í gildi, 44 árið 2002 og 21 á fyrri hluta þessa árs, sem ég tel vera nokkuð fá tilvik og segir mér að kynning á sjúklingatryggingunni hefði mátt vera betri og meiri. Reyndar má segja að frá því að ég ræddi þessi mál við heilbrigðisstarfsmennina í sumarlok birtist ágæt grein um sjúklingatrygginguna eftir lækni og lögfræðing Tryggingastofnunar í Læknablaðinu, þ.e. Læknablaðinu sem kom út í september. Hún ætti að ná til a.m.k. hluta heilbrigðisstarfsfólks.

Herra forseti. Ég tel þarna ekki hafa verið nógu vel að verki staðið og þurfi að gera betur. Lögin um réttindi sjúklinga sem samþykkt voru 1997 fengu mjög fína kynningu í heilbrrn. og gefið var bæði út rit og bæklingur um réttindi samkvæmt þeim lögum.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Eru þetta einu kynningarnar sem ég nefndi hér á undan á sjúklingatryggingunni, eða hvernig hefur kynningin farið fram? Eru áform um að koma upplýsingum um réttindi sjúklinga samkvæmt henni og hvernig þeir eiga að bera sig að ef þeir telja sig hafa orðið fyrir tjóni í tengslum við meðferð? Er gert ráð fyrir að koma einhverjum upplýsingum með bæklingi eða kynningu á framfæri, því að það er til lítils að auka réttindi sjúklinga ef þeir vita ekki af þeim réttindum og bera sig þess vegna ekki eftir þeim? Það er frumskilyrði að menn viti af þessu.