Umferð hjólandi vegfarenda um Reykjanesbraut

Miðvikudaginn 08. október 2003, kl. 15:16:47 (324)

2003-10-08 15:16:47# 130. lþ. 7.5 fundur 60. mál: #A umferð hjólandi vegfarenda um Reykjanesbraut# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 130. lþ.

[15:16]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Hæstv. forseti. Fyrirspyrjandi, hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir, hefur gert hér grein fyrir þeirri fsp. sem hún hefur borið upp. En svar mitt er svohljóðandi:

Í viðræðum Vegagerðarinnar við fulltrúa sveitarfélaganna Reykjanesbæjar, Vatnsleysustrandarhrepps og Hafnarfjarðar hefur verið gengið út frá því að hjólreiðar verði bannaðar á Reykjanesbrautinni sjálfri eins og kom fram í ræðu hv. þm. þegar hún mælti fyrir fyrirspurninni. Hjólreiðafólki verði beint inn á gamla Keflavíkurveginn í Njarðvík og hjóli eftir honum að Vogum. Síðan verði hjólað eftir Vatnsleysustrandarveginum að nýjum vegamótum sunnan eða vestan Kúagerðis. Þaðan verður lagfærð leið að gamla Keflavíkurveginum austan Kúagerðis og honum fylgt austur að Straumi. M.a. verða gerð undirgöng undir Reykjanesbrautina við Hvassahraun vegna hjólreiðafólks, en þaðan liggur gamli Keflavíkurvegurinn sunnan núverandi Reykjanesbrautar. Frá Straumi og áfram inn í Hafnarfjörð er ekki endanlega ákveðið hvert hjólreiðafólki verður beint en það er hluti af skipulagi Hafnarfjarðar sem er í endurskoðun á þessu svæði og nauðsynlegt að taka það fram. Frágangur yfirborðs hjólreiðastígsins alla leið frá Reykjanesbæ er ekki endanlega ákveðinn, en í matsskýrslu með breikkun Reykjanesbrautar kemur fram að það kosti um 16 millj. kr. að leggja klæðningu á gamla Keflavíkurveginn frá Njarðvík að Vogum. Ekki er fyrirhugað að setja upp sérstaka lýsingu með hjólreiðastígum.

Þetta er svarið sem ég hef við fsp. hv. þm.