Umferð hjólandi vegfarenda um Reykjanesbraut

Miðvikudaginn 08. október 2003, kl. 15:18:50 (325)

2003-10-08 15:18:50# 130. lþ. 7.5 fundur 60. mál: #A umferð hjólandi vegfarenda um Reykjanesbraut# fsp. (til munnl.) frá samgrh., JGunn
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 130. lþ.

[15:18]

Jón Gunnarsson:

Frú forseti. Ég fagna svari hæstv. samgrh. við þeirri fsp. sem hér liggur fyrir. Það er alveg rétt sem fram kom í svarinu að sveitarfélögin á Suðurnesjum hafa farið yfir þetta mál og skoðun þeirra á þessu máli liggur fyrir algjörlega kristaltær, hvort sem um er að ræða Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum eða hreppsnefnd Vatnsleysustrandarhrepps, að hjólreiðar eiga ekki heima á hraðbrautinni, á tvöfaldri Reykjanesbraut. Og sú leið sem talað er um að fara, þ.e. frá Fitjum í gegnum Innri-Njarðvík, yfir Vogastapa í Voga, eftir gamla Vatnsleysustrandarvegi í Kúagerði og þaðan áfram í Hvassahrauni til Hafnarfjarðar, er í raun og veru eina leiðin sem til greina kemur.

Það sem við furðum okkur aftur á móti á er hve seint gengur að byrja á þessu, vegna þess að framkvæmdir ganga mjög vel við Reykjanesbraut og okkur undrar að ekki sé þegar farið að undirbúa þessa framkvæmd þannig að hún geti orðið tilbúin á sama tíma og umferð verður hleypt á þann part Reykjanesbrautarinnar sem tilbúin verður fljótlega.