Áhrif hvalveiða á ferðaþjónustu hér á landi

Miðvikudaginn 08. október 2003, kl. 15:25:44 (329)

2003-10-08 15:25:44# 130. lþ. 7.6 fundur 74. mál: #A áhrif hvalveiða á ferðaþjónustu hér á landi# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 130. lþ.

[15:25]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Frú forseti. Ég ber hér fram fyrirspurn til hæstv. samgrh. um áhrif hvalveiða okkar í vísindaskyni á ferðaþjónustu hér á landi. Það er ekki langt liðið frá því að við Íslendingar hófum að nýju vísindaveiðar á hval, eða um tveir mánuðir, og því án efa ekki komin fram raunveruleg áhrif veiðanna á ýmsar aðrar atvinnugreinar. Engu að síður er það mikilvægt þegar farið er út í aðgerðir eins og þessar veiðar, sem vitað er að hafa haft áhrif á aðrar atvinnugreinar, að gera á því athuganir og úttektir. Og því spyr ég ráðherra hvort hann hafi látið kanna áhrif hvalveiðanna á ferðaþjónustuna áður en veiðar hófust, eftir að þær hófust og skoðað hver áhrifin gætu orðið og þá haft samráð við ferðaþjónustuna um það.

Nú er það svo að samkvæmt mínum heimildum hafa engar slíkar kannanir eða rannsóknir verið gerðar, sem er gagnrýnivert ef rétt er, og samráð við þá sem starfrækja hvalaskoðunarfyrirtæki ekki verið neitt, ekki þegar veiðar hófust og reyndar ekki fyrr en nokkru eftir að þær hófust.

Það hefur verið álit þeirra sem stunda hvalaskoðun í öðrum löndum að hvalaskoðun og veiðar á sömu hvalategund gangi ekki upp og eru hvalaskoðunarmenn hér á landi á sama máli. Þeir eru því uggandi um framtíð starfsgreinarinnar. Í því ljósi er mikilvægt að gera kannanir á líklegum áhrifum á ferðaþjónustuna. Vitað er að einhver hundruð ferðamanna hafa hætt við komu hingað vegna hvalveiða okkar á þeim stutta tíma sem liðinn er frá því þær hófust, á þessum tveimur mánuðum.

Hvalaskoðun hefur verið í mikilli sókn og ferðamönnum hefur fjölgað ótrúlega. Þegar hvalaskoðun hófst hér árið 1995 fóru 2.200 manns í slíka ferð. Árið 1999 voru þeir 35 þúsund og í fyrra 62 þúsund, þ.e. tvöföldun á þremur árum. Hvergi er meiri aukning í hvalaskoðun í allri Evrópu en hér og því um mjög mikilvæga atvinnugrein í ferðaþjónustu að ræða og miklir hagsmunir í húfi. Menn hafa talið að um 10% ferðamanna komi hingað gagngert til að fara í hvalaskoðun en nú er væntanleg ný könnun sem bendir til að það sé mun stærri hópur.

Nú er gert ráð fyrir í fjárlagafrv. að allmiklar fjárveitingar fari til rannsókna og kynningar á ferðaþjónustu og svo til kynningaskrifstofa erlendis og væri fróðlegt að vita hvort eitthvað af því fé er ætlað sérstaklega til þess að bregðast við neikvæðum áhrifum þessara veiða.

En ég spyr í síðari spurningu minni hvort ráðherra hyggist bregðast við neikvæðum áhrifum veiðanna á ferðaþjónustu með kynningarátaki eða á annan hátt.