Áhrif hvalveiða á ferðaþjónustu hér á landi

Miðvikudaginn 08. október 2003, kl. 15:28:57 (330)

2003-10-08 15:28:57# 130. lþ. 7.6 fundur 74. mál: #A áhrif hvalveiða á ferðaþjónustu hér á landi# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 130. lþ.

[15:28]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Hæstv. forseti. Í fyrsta lagi er spurt: ,,Hefur ráðherra látið kanna hvaða áhrif hvalveiðar okkar hafa haft á ferðaþjónustu hér á landi eða hver áætluð áhrif þeirra verði á hana?``

Svarið er svohljóðandi: Engin könnun hefur verið gerð á vegum ráðuneytisins á því hver hafi verið áhrif hvalveiða undanfarnar vikur á ferðaþjónustu hér á landi né hver áætluð áhrif þeirra verði. Ferðamálaráð Íslands hefur gert og mun áfram á næsta ári gera almennar kannanir á meðal erlendra ferðamanna þar sem m.a. koma fram upplýsingar um fjölmarga áhrifavalda á vali þeirra á Íslandi sem áfangastað. Þó engin formleg könnun hafi verið gerð sérstaklega á áhrifum hvalveiða á ferðaþjónustu þann tíma sem þær stóðu yfir, þá liggja fyrir upplýsingar um breytingar á fjölda erlendra gesta til landsins á þessum tíma miðað við fyrra ár.

Eins og þekkt er hófust vísindaveiðar á hrefnu 16. ágúst sl. Fjöldi erlendra gesta sem sóttu okkur heim í ágúst og september er verulega meiri en undanfarin ár. Nú í september er aukningin miðað við síðasta ár 16,5% og í ágúst voru erlendir gestir fleiri en nokkru sinni fyrr í einum mánuði og aukningin miðað við fyrra ár 16,2%. Af þessum tölum má ljóst vera að hrefnuveiðarnar, vísindaveiðarnar, hafa ekki dregið úr komu ferðamanna til landsins þennan tíma.

Í annan stað er spurt: ,,Áformar ráðherra að bregðast við neikvæðum áhrifum veiðanna á atvinnugreinina með kynningarátaki eða á annan hátt?``

Svar mitt er þetta: Eins og kom fram í svari við fyrri spurningunni hafa umrædd möguleg áhrif ekki verið könnuð á okkar mörkuðum. Ráðherra hefur undanfarin ár beitt sér fyrir almennt mjög aukinni markaðssókn íslenskrar ferðaþjónustu á innlendum og erlendum mörkuðum í samstarfi við ferðaþjónustuaðila. Með stórauknum fjárveitingum, breyttum áherslum og aukinni samvinnu atvinnugreinar og stjórnvalda hefur tekist að verja stöðu okkar og ná hlutfallslega meiri árangri en nágrannalönd okkar hafa náð í kjölfar niðursveiflu tengdri hryðjuverkunum 11. september og fleiri áhrifaþáttum sem hafa haft neikvæð á hrif á ferðaþjónustuna. Þessu almenna markaðsstarfi verður haldið áfram á næsta ári með enn meiri þunga en fyrr. Ekki eru áform um að bregðast sérstaklega við ókönnuðum áhrifum hvalveiða á okkar mörkuðum, heldur eins og áður sagði að efla allt okkar almenna markaðsstarf innan lands og á okkar hefðbundnu mörkuðum erlendis og færa út kvíarnar og leggja nú m.a. áherslu á Japansmarkað.

Vegna vísindaveiðanna á hrefnu og þeirrar umræðu sem hefur orðið, tel ég eðlilegt að meta hvort ekki sé æskilegt að gera sérstakt átak við kynningu á hvalaskoðunarsiglingunum við landið og styrkja þannig stoðir þeirrar greinar ferðaþjónustunnar sem hefur vissulega verið vaxandi og er fagnaðarefni hversu margir hafa farið inn á þá braut að sýna ferðamönnum hvali og annað sem ber að líta við strendur landsins.