Áhrif hvalveiða á ferðaþjónustu hér á landi

Miðvikudaginn 08. október 2003, kl. 15:37:08 (334)

2003-10-08 15:37:08# 130. lþ. 7.6 fundur 74. mál: #A áhrif hvalveiða á ferðaþjónustu hér á landi# fsp. (til munnl.) frá samgrh., ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 130. lþ.

[15:37]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Hæstv. forseti. Staðreyndin er sú að við vitum ekkert hvaða áhrif þessar vísindaveiðar í sumar hafa haft eða munu hafa og hvaða áhrif áframhaldandi veiðar munu hafa á þjóðarhag Íslands. Eins og fram hefur komið var það ekki rannsakað fyrir fram þrátt fyrir að í gildi hafi verið þáltill. sem var samþykkt hér snemma árs 1999 þannig að nægur hefur tíminn verið, herra forseti, til þess að undirbúa málið. Það hefur þó ekki verið gert. Og við vitum í raun ekki hver áhrifin verða.

Hins vegar getum við haft skoðun á því hvort rétt sé að málum staðið. Ég er í sjálfu sér ekki á móti hvalveiðum, enda sé ég ekki að það hafi eitthvert gildi í sjálfu sér að vera á móti hvalveiðum á meðan verið er að nýta stofna sem ekki eru í útrýmingarhættu. Ég held hins vegar að það sé afar heimskulegt að skjóta hvali og skoða þá líka. Ég tala nú ekki um þegar það gerist í sama flóanum og berst svo til fréttastofu í Bretlandi þar sem hvalaskoðunarferðamennirnir horfðu upp á hvaladráp sér til lítillar gleði, herra forseti.