Endurskoðun atvinnuleysisbóta

Miðvikudaginn 08. október 2003, kl. 15:44:59 (338)

2003-10-08 15:44:59# 130. lþ. 7.7 fundur 65. mál: #A endurskoðun atvinnuleysisbóta# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 130. lþ.

[15:44]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja fram fsp. til hæstv. félmrh. varðandi upphæðir, (Gripið fram í: Frú forseti.) frú forseti, atvinnuleysisbóta og ég skal bara kalla félmrh. ,,frú félmrh.`` í staðinn.

Ég gekk frá þeim fyrirspurnum daginn fyrir þingsetningu, ef ég man rétt, og skal fúslega játa að ég gerði það í þeim anda að það kæmi til greina og gæti verið á dagskrá á Íslandi í dag að gera úrbætur í málefnum atvinnulausra, að hækka atvinnuleysisbætur, að endurskoða fyrirkomulag þeirra í þágu hinna atvinnulausu. Á dauða mínum átti ég von en ekki því sem síðan birtist í fjárlagafrv. að þar væri boðuð skerðing á atvinnuleysisbótum.

Það er þannig, frú forseti, að atvinnulausir í dag eru í ágústmánuði 4.452, miðað við fulla vinnu og heilt ár, eða rétt tæp 3% af vinnuaflinu í landinu. Og ég leyfi mér að fullyrða að það er ekki góðærinu fyrir að fara hjá þessum hópi. Atvinnuleysisbætur eru, eftir smávægilega hækkun sem á þeim varð um síðustu áramót, um 77 þús. kr. eða rétt rúmar 77 þús. kr. á mánuði.

Nú er það svo að framsóknarmenn héldu flokksþing í febrúarmánuði sl. Í framhaldi af því flokksþingi spurði ég þáv. félmrh. og forvera hins núverandi hvort til stæði að efna samþykktir flokksþings framsóknarmanna, en þar sagði m.a., með leyfi forseta:

,,Hækka ber atvinnuleysisbætur og stefna að því að þær verði ekki lægri en lægstu launataxtar`` sem voru á þeim tíma um 93 þús. kr., þ.e. það fyrirfundust aðeins lægri taxtar, en á grundvelli sérákvæðis í síðustu samningum eru ekki greidd lægri laun en þessar 93 þús. kr.

Sem sagt, það vantar einar 17 þús. kr. upp á að atvinnuleysisbæturnar nái allra lægstu launum sem þekkjast í landinu. Um það hafa þó framsóknarmenn ályktað að þangað skuli þær fara.

Það brá að vísu svo undarlega við að þáv. félmrh. svaraði því neitandi að til greina kæmi að hækka þetta. En nú gefst núv. félmrh. kostur á að svara því hvort til standi raunhækkun atvinnuleysisbóta, hvaða viðhorf ráðherra hafi til þess að tengja atvinnuleysisbætur við launaþróun á nýjan leik og hvort breytt úthlutun bótanna, breyttur útreikningur, t.d. að fyrstu mánuðina muni taka eitthvert mið af þeim launum sem menn höfðu áður eða af félagslegum skuldbindingum manna, til þess að minnka höggið frá þeim kjörum sem menn bjuggu við áður en þeir misstu vinnuna, kannski allvel launað fólk, sem er dúndrað niður í 77 þús. kr. á mánuði. Ég vil gjarnan heyra svör við þessu frá hæstv. félmrh. og hvort það sé virkilega rétt að til standi að breyta fyrirkomulagi atvinnuleysisbóta þannig að menn verði launalausir fyrstu þrjá daga atvinnuleysis og það eigi líka að gilda um fiskvinnslufólk, sem þá verði farið að henda heim, eins og var gert hér í gamla daga, um leið og hráefni skortir og það verði aftur og aftur kauplaust í þrjá daga. Er það þannig sem við ætlum að fara aftur á bak í tímann en ekki fram á við, t.d. í málefnum þessa hóps?