Endurskoðun atvinnuleysisbóta

Miðvikudaginn 08. október 2003, kl. 15:54:34 (342)

2003-10-08 15:54:34# 130. lþ. 7.7 fundur 65. mál: #A endurskoðun atvinnuleysisbóta# fsp. (til munnl.) frá félmrh., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 130. lþ.

[15:54]

Össur Skarphéðinsson:

Frú forseti. Það er auðvitað með ólíkindum að fylgjast með því hvernig hæstv. félmrh. hefur göngu sína í þessum sölum. Við þurfum ekki að ræða um þau samskipti sem þingið hefur átt við hæstv. ráðherra um málefni verkamanna við Kárahnjúkasvæðið. En hér kemur hæstv. ráðherra og staðfestir að hann sé að leggja í þá göngu að rýra kjör atvinnulausra á Íslandi með því að búa til sérstakan biðtíma og segir síðan að það sé gert til þess að færa kjör þeirra til samræmis við það sem gerist á Norðurlöndunum. Veit hæstv. ráðherra ekki að kjör atvinnulausra á Norðurlöndum eru snöggtum betri en hér á landi?

Ég spyr, frú forseti. Mundi hæstv. félmrh. treysta sér til þess að framfleyta sjálfum sér, ekki börnum og fjölskyldu, á 77 þús. kr. á mánuði? Treystir hæstv. félmrh. sér til þess að koma hingað og verja framkomu sína gagnvart atvinnulausum, andspænis því loforði sem þeim voru gefin í stefnunni sem samþykkt var á flokksþingi Framsfl.? Frú forseti. Er það nema von að nýjum þingmönnum misbjóði og renni í skap eins og hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni. Þetta er auðvitað ekkert annað en brigð á orðum.