Endurskoðun atvinnuleysisbóta

Miðvikudaginn 08. október 2003, kl. 15:55:58 (343)

2003-10-08 15:55:58# 130. lþ. 7.7 fundur 65. mál: #A endurskoðun atvinnuleysisbóta# fsp. (til munnl.) frá félmrh., KolH
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 130. lþ.

[15:55]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Frú forseti. Hér eru sannarlega sorgartíðindi á ferð þegar hæstv. félmrh. gerir þá játningu í ræðustól að hann ætli sér að færa t.d. möguleika atvinnulauss fiskverkafólks til fornaldarhorfs. Hefur hæstv. ráðherra gert sér grein fyrir því hvað þetta eru alvarleg spor sem hann er nú að stíga? Ég verð að segja, frú forseti, að sá maður sem segir, undir þessum kringumstæðum, að hann ætli að taka allt kerfið til endurskoðunar samhliða breytingum, hefur vondan málstað að verja. Ég skora á hæstv. félmrh. að reka af sér þetta slyðruorð og koma til dyranna eins og maður ímyndar sér að hann sé innréttaður, miðað við þau loforð og þær yfirlýsingar sem hann gaf í nýafstaðinni kosningabaráttu. Hann á að sjálfsögðu að ganga fram fyrir skjöldu í ríkisstjórninni og verja hagsmuni atgvinnulausra og berjast fyrir því með kjafti og klóm að atvinnuleysistryggingakerfið verði eflt til muna og atvinnuleysisbætur verði færðar til þess horfs að þær geti jafnast á við lægstu laun.