Endurskoðun atvinnuleysisbóta

Miðvikudaginn 08. október 2003, kl. 16:05:13 (349)

2003-10-08 16:05:13# 130. lþ. 7.7 fundur 65. mál: #A endurskoðun atvinnuleysisbóta# fsp. (til munnl.) frá félmrh., MÞH (ber af sér sakir)
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 130. lþ.

[16:05]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Frú forseti. Mér fannst ansi snautleg vörn hv. þm. Hjálmars Árnasonar hér áðan. Hann sakaði mig um að draga úr virðingu þingsins með ummælum héðan úr hinum háa ræðustól Alþingis. Það er alls ekki ætlun mín. Ég hef hins vegar verið að benda á hvernig stjórnarliðar hafa verið að vanvirða þingið með því að sitja ekki hér þegar mikilvægar umræður fara fram. Þeir sitja ekki undir andsvörum þegar stjórnarandstaðan er að gagnrýna þá í mikilvægum málum sem varða hagi fólksins í landinu. Mér finnst þetta alveg með ólíkindum sem nýjum þingmanni.

Ég sagði áðan að nýir vendir sópuðu best. Ég vona að svo verði að við hinir nýju þingmenn sem nú setjumst á Alþingi í fyrsta sinn munum virkilega vera þess umkomnir að geta aðeins tekið hér til.

Svo er það annað, þ.e. hin fræga ferð sem hv. þm. Hjálmar Árnason er alltaf að nudda mér upp úr og segir að ég hafi þar verið að lítilsvirða þingið. Þetta er alls ekki rétt. Það sem ég átti við þar með gagnrýni minni á þá ferð var að ég óskaði eftir því að hv. sjútvn. Alþingis fengi að hitta fólkið í landinu, ekki einhverja útgerðarmenn, valda útgerðarmenn, heldur fólkið í landinu, fólkið sem vinnur við mikilvægustu atvinnugrein landsins sem er sjávarútvegurinn. Það var mín fróma ósk. En það er ósköp skiljanlegt að hv. þm. Hjálmar Árnason skilji ekki slíkar óskir.