Sala Landssímans

Fimmtudaginn 09. október 2003, kl. 10:38:11 (354)

2003-10-09 10:38:11# 130. lþ. 8.91 fundur 71#B sala Landssímans# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 130. lþ.

[10:38]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Fulltrúar Samf. gerðu á sínum tíma einmitt athugasemdir við að sama ráðuneyti færi með forræðið yfir Símanum og jafnframt eftirlit. Sú breyting sem verið var að kynna á síðum Fréttablaðsins í gær er því í fullkomnu samræmi við afstöðu Samf. Hins vegar er það alveg hárrétt hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni að það er auðvitað umhendis hjá hæstv. ríkisstjórn að kynna þau skipti með þessum hætti. Það hefði verið rétt að gera það þannig að þinginu yrði gerð grein fyrir því með öðrum hætti en því væri lekið í Fréttablaðið.

Herra forseti. Ég vil að það komi skýrt fram hér að Samfylkingin hefur mótað stefnu um sölu Landssímans. Hún er þeirrar skoðunar að það eigi að selja samkeppnisrekstur Landssímans. Hins vegar viljum við verja hlut landsbyggðarinnar og tryggja að hún nái að þróast tæknilega og á grundvelli þeirra fjarskiptabreytinga með sama hætti og þéttbýlið. Þess vegna höfum við sagt að á heppilegum tíma væri rétt að selja samkeppnisreksturinn en það á að skilja dreifikerfið frá til að landsmenn hafi allir sömu tök á því að koma sínum afurðum á sviði hugbúnaðar frá sér og sömuleiðis á að sækja sér upplýsingar.

Hins vegar finnst mér að hæstv. fjmrh. verði að gera betur grein fyrir því með hvaða hætti á að selja Símann. Hæstv. ráðherra sagði að það ætti að auglýsa hann til sölu. Ég tel, eins og hlutabréfamarkaðurinn hefur farið á allra síðustu mánuðum og missirum, að farsælt yrði, sé á annað borð er tekin ákvörðun að selja Símann, að gera það með þeim hætti að smáum fjárfestum, almennum borgurum í þessu landi, yrði gert mögulegt að fjárfesta í honum og reyna þannig að spýta nýju blóði í þennan markað sem hefur heldur farið dvínandi í þeim stórfiskaleik sem við höfum orðið vitni að.

Herra forseti. Sala Símans hefur verið eitthvert mesta klúður sem hæstv. fjmrh. hefur lent í til þessa. Ég vara hann við því að ana út í söluna jafnilla undirbúinn og sagan hefur sýnt hann gera áður.