Tryggingagjald

Fimmtudaginn 09. október 2003, kl. 10:54:29 (362)

2003-10-09 10:54:29# 130. lþ. 8.2 fundur 89. mál: #A tryggingagjald# (viðbótarlífeyrissparnaður) frv., fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 130. lþ.

[10:54]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum um tryggingagjald. Frumvarp þetta er eitt af fylgifrumvörpum fjárlagafrv. næsta árs.

Í frv. er lagt til að ákvæði 4.--7. mgr. 2. gr. laga um tryggingagjald verði felld brott. Sú breyting felur í sér að heimild launagreiðanda til lækkunar á tryggingagjaldi, sem nýta á sem iðgjald á móti iðgjaldi launamanns í tilviki séreignarlífeyrissparnaðar, er felld niður.

Með lögum nr. 148/1998, um breyting á lögum um tryggingagjald, var kveðið á um lækkun tryggingagjalds launagreiðanda um allt að 0,2%, en þó ekki meira en sem næmi 10% af iðgjaldshluta launamanns samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Þessa lækkun skyldi nýta sem iðgjald launagreiðanda á móti iðgjaldi launamanns til viðbótarlífeyrissparnaðar.

Framangreind breyting á lögum um tryggingagjald var gerð í framhaldi af breytingum á lögum um tekjuskatt og eignarskatt þar sem heimildir einstaklinga til skattfrádráttar vegna lífeyrisiðgjalda voru rýmkaðar. Þannig var launamönnum og þeim sem unnu við sjálfstæða starfsemi heimilt frá og með 1. janúar 1999 að lækka skattskyldar tekjur sínar um allt að 2% verðu þeir fjárhæðinni til lífeyrissparnaðar samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Með breytingum á lögum um tekjuskatt og eignarskatt vorið 2000 var þessi heimild hækkuð úr 2% í 4% auk þess sem heimild til lækkunar á tryggingagjaldi hækkaði úr 0,2% í 0,4%.

Meginmarkmiðið með þessum breytingum var tvíþætt, annars vegar að skapa skilyrði fyrir aukinn þjóðhagslegan sparnað og hins vegar að efla lífeyrissparnað landsmanna jafnframt því að auka vitund og sjálfsákvörðunarrétt þeirra yfir þessu sparnaðarformi. Framangreindar breytingar hafa svo sannarlega náð markmiðum sínum með vaxandi þátttöku launþega ár frá ári í þessari sparnaðarleið. Er nú svo komið að ríflega helmingur opinberra starfsmanna tekur þátt í viðbótarlífeyrissparnaðinum og að því mér er best kunnugt tæpur helmingur á hinum almenna vinnumarkaði.

Af þessu má draga þá ályktun að stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins hafi náð settu marki og vel það. Sparnaður í formi viðbótarlífeyris hefur náð góðri fótfestu meðal landsmanna sem eðlilegt sparnaðarform og því ekki lengur nein þörf sértækra ráðstafana á þessu sviði til að hvetja til sparnaðar, og því er lögð til umrædd breyting í þessu frv. Þar er lagt til að heimild til lækkunar tryggingagjalds vegna viðbótarlífeyrissparnaðar verði afnumin, en í því felst að greiðsla sú sem kemur úr ríkissjóði inn á reikninga þeirra sem spara með þessum hætti fellur niður. Greiðsla launagreiðandans er hins vegar óbreytt, það er engin hækkun sem verður hjá honum í þessu sambandi.

Hins vegar er rétt að vekja athygli á því að áfram verður í fullu gildi sá hvati til viðbótarlífeyrissparnaðar sem felst í frádrætti iðgjaldsins frá skattskyldum tekjum og jafnframt sá hvati sem felst í mótframlagi vinnuveitenda. Og það er breytingin frá því að upphaflega var lögfest að ríkið legði á móti inn á reikninga viðkomandi launamanna. Sú breyting er sem sé sú að samið hefur verið á hinum frjálsa markaði og milli opinberra starfsmanna og ríkisins um að auka þetta framlag og að mótframlag komi frá vinnuveitanda. Það er því ærinn hvati fyrir hendi í þessu kerfi eins og það er í dag og þess vegna er ástæðulaust að ráðstöfun sem upphaflega var hugsuð sem tímabundin hvatning haldi endalaust áfram. Þess vegna er lagt til að það fjármagn sem hér er um að tefla og gæti numið um hálfum milljarði kr. á ári verði nýtt til annarra þarfa, samanber það sem um það segir í fjárlagafrv.

Ég legg því til, herra forseti, að máli þessu verði vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.