Tryggingagjald

Fimmtudaginn 09. október 2003, kl. 11:08:32 (364)

2003-10-09 11:08:32# 130. lþ. 8.2 fundur 89. mál: #A tryggingagjald# (viðbótarlífeyrissparnaður) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 130. lþ.

[11:08]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er enginn vafi á því í mínum huga að samkomulag aðila vinnumarkaðarins, verkalýðshreyfingar og vinnuveitenda, á árunum í kringum 1970, um að hefja hér uppbyggingu lífeyrissjóða með söfnunarfyrirkomulagi, er eitt mesta gæfuspor sem við Íslendingar höfum tekið. Ég er eindreginn stuðningsmaður þess í nútímanum, eftir að hafa skoðað samanburð á stöðu landa, Norðurlanda og Evrópulanda, að lífeyrissparnaðurinn í söfnunarsjóðum sé eitt af því sem geti átt eftir að skipta sköpum fyrir Ísland og lífskjör á Íslandi, sérstaklega eldri kynslóðarinnar á komandi árum og áratugum. Það mun gera Íslandi miklu léttara en ella að mæta breyttri aldurssamsetningu og býr til grunn til betra samkomulags milli kynslóðanna en ella hefði verið hægt að ná. Fróðlegt væri fyrir þá sem enn hafa allt á hornum sér gagnvart þessu kerfi að kynna sér t.d. umræðurnar í Þýskalandi undanfarin ár, um þá miklu erfiðleika sem Þjóðverjar standa frammi fyrir með sitt gegnumstreymiskerfi.

Þar af leiðandi var það ekki síður ánægjulegt, herra forseti, þegar samkomulag tókst undir lok 10. áratugar síðustu aldar, á árinu 1998 ef ég man rétt, um að festa þetta kerfi betur í sessi með nýjum lögum og gera það altækt þannig að greitt væri af öllum launum allra vinnandi manna í samtryggingarkerfi sem næmi 10% af heildartekjum og festa í sessi form fyrir frjálsan viðbótarsparnað. Sú sátt sem að hluta náðist milli mjög ólíkra hugmynda, um hvort byggja ætti á samtryggingarkerfi í söfnunarsjóðum eða algerlega frjálsum lífeyristryggingum eða lífeyrissparnaði, var mjög merk. Það var mikið gæfuspor þegar hún náðist og þar lögðu margir gjörva hönd á plóginn.

Hluti af því samkomulagi sem kom til framkvæmda í áföngum á árinu 1999--2000 og er enn að þroskast voru reglurnar um hinn frjálsa viðbótarsparnað sem byggði í raun á þríhliða samkomulagi aðila vinnumarkaðarins og ríkisins í gegnum skattfrelsisákvæðin og þá hvatningu sem er til þessa sparnaðar með mótframlögum vinnuveitenda og beinni þátttöku ríkisins. Hvatningin hefur verið tvíþætt: Annars vegar skattfrestunin sem í sjálfu sér er ósköp eðlilegt fyrirkomulag hvað sköttun þessara tekna varðar, að inngreiðslurnar séu skattfrjálsar en síðan útgreiðslurnar meðhöndlaðar sem tekjur, og síðan þessi litli angi málsins sem við ræðum hér og fjmrh. gerir ekki mikið úr.

Það kann vel að vera að það muni ekki hrikta í þessu grundvallarsamkomulagi, samstöðunni um þetta mál eða að þetta valdi miklum breytingum á áhuga manna á sparnaðinum. Þetta hlýtur þó að verka mjög letjandi á atvinnurekandahliðina. Það er mjög augljóst mál. Ég leyfi mér að spyrja hæstv. fjmrh. um hinn pólitíska bakgrunn málsins. Hvaða viðræður við aðila vinnumarkaðarins liggja að baki þessum fyrirhuguðu breytingum? Er hugsanlega verið að búa til enn eina skiptimyntina í komandi kjarasamningum eins og læðst hefur að manni og manni, að það sé verið að setja ýmiss konar skepnuskap inn í fjárlagafrv., skerðingu atvinnuleysisbóta og krukk í þetta og hitt til að eiga uppi í erminni sem skiptimynt þegar kemur að kjarasamningum, að kippa því til baka? Þarna væri náttúrlega dúsa sem upplagt væri að láta atvinnurekendur fá aftur, þ.e. hætta við þessa breytingu ef svo bæri undir.

Framsetning þessa frv. er einnig athyglisverð, herra forseti, og ég vil spyrja hæstv. fjmrh.: Er hæstv. fjmrh. ánægður með mat fjárlagaskrifstofunnar á þessu frv.? Ég las fyrst greinargerð frv. og síðan umsögn fjárlagaskrifstofunnar. Af hvorugu er neinar upplýsingar að hafa um kostnaðaráhrif málsins. Þar stendur ekki eitt orð um tekjuauka ríkissjóðs af þessum breytingum. Hvernig stendur á því? Til hvers er fjárlagaskrifstofan að fara yfir frumvörp? Er það ekki einmitt til þess að meta tekjuáhrifin á ríkissjóð?

Það skrapp upp úr hæstv. fjmrh. í framhjáhlaupi að þetta væri hálfur milljarður. Það er nefnilega það. Þetta er hálfur milljarður í tekjuauka fyrir ríkissjóð sem færist á greiðendur tryggingagjalds, gjalds sem hefur hækkað hressilega á undanförnum árum eins og kunnugt er við misjafna hrifningu. Skattbyrði á atvinnulífið hefur t.d. færst talsvert frá skattlagningu hagnaðar yfir í skattlagningu launatengds kostnaðar. Það gerðist með því að lækka stórlega álagningarprósentu tekjuskatts á lögaðila en hækka verulega tryggingagjald á sama tíma. Margir hafa miklar efasemdir um þá þróun. Hún færir augljóslega til skattbyrði af fyrirtækjum sem eru að gera upp rekstur sinn með mjög góðri afkomu yfir á þau fyrirtæki sem hafa hlutfallslega há launaútgjöld. Við vitum að launakostnaðurinn er hátt hlutfall af kostnaði fyrirtækja í matvælaiðnaði og öðrum slíkum en þessi tilfærsla kemur ákaflega vel út fyrir fyrirtæki með mikla fjárhagsveltu en lítið mannahald, fámenn fjármálafyrirtæki með mikla umsetningu. Þetta er auðvitað sérstök jólagjöf til þeirra, að lækka á þeim skattinn en hækka í staðinn launaútgjöldin.

[11:15]

Mér finnst, herra forseti, eins og það sé hálfpartinn verið að reyna að fela þetta hér, eða hver er ástæðan fyrir því að engar upplýsingar er að hafa, hvorki í greinargerð frv. né umsögn fjárlagaskrifstofunnar, sem er enn sérkennilegra, um það hvaða kostnaðaráhrif þetta hafi á ríkissjóð? Í raun og veru er þessi umsögn fjárlagaskrifstofunnar alveg stórmerkileg þegar hún er skoðuð betur því að hún er bara stytt endursögn á greinargerðinni. Það er ekkert nýtt í henni, ekki eitt orð, ekkert mat á því hvort þetta sé líklegt til að draga úr lífeyrissparnaði eða hvaða afleiðingar gætu orðið af þessu. Ekki einu sinni er minnst á það einu orði hvaða tekjuáhrif þetta hafi á ríkissjóð. Af því að það vill svo vel til að fjmrh. er hér til svara fyrir málið getur hann væntanlega líka tjáð sig um það hvort hann sé stoltur af þessari umsögn fjárlagaskrifstofunnar. Ég sé ekki annað en að það megi alveg eins sleppa því að senda henni frumvörp eins og að fá frá henni svona tuggu eins og þetta er.

Herra forseti. Eins og heyra má á máli mínu hef ég, og við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði, mjög miklar efasemdir um þetta mál. Það er út af fyrir sig alveg gilt sjónarmið að segja sem svo: Það var tímabundin aðgerð til að hvetja til þessa sparnaðar og koma honum á legg að ríkið tæki þátt í þessu með þeim hætti að slá af tryggingagjaldinu og greiða það inn á sparnaðinn. Þá hlýtur samt að vakna spurningin: Er rétti tíminn til að hverfa frá því núna, og það í einu skrefi, hætta því alveg? Þetta kom þannig til að fyrst komu 0,2% og síðan var fylgt eftir hækkuðum viðmiðunarmörkum með því að hækka það upp í 0,4%. Það þyrfti að koma til greina að fara þá út úr þessu í áföngum. Ég leyfi mér að halda því fram, og er þar á svipuðum nótum og hv. þm. Össur Skarphéðinsson --- það hlýtur að gleðja hv. þingmann mjög að við séum þó a.m.k. tiltölulega samstiga í þessu efni (ÖS: Velkominn í minn hóp.) og að því leyti báðir í stjórnarandstöðu í þessu máli --- að ég held að núna sé ekki rétti tíminn. Ég hef miklar efasemdir um það. Þessi viðbótarlífeyrissparnaður er tiltölulega nýr af nálinni. Fólk er að prófa þetta og það er alls ekki sjálfgefið að hann sé fastur í sessi um ókomin ár. Það ræðst af svo ýmsu og ýmsu, m.a. af því hvort fólk telur sig fá fullnægjandi ávöxtun á þennan viðbótarlífeyrissparnað. Hún hefur víða ekki verið neitt sérstaklega merkileg síðustu 1--2 árin, sums staðar léleg, allt niður í að vera neikvæð í einstökum tilvikum er mér kunnugt. Þess vegna gætu menn einmitt verið að meta það núna og velta því fyrir sé: Bíddu, er þetta skynsamlegt? Á ég ekki bara að hætta þessum sparnaði og fara að kaupa ríkisskuldabréf eða leggja peninginn bara inn á bestu fáanlegar bankabækur? Menn hefðu í mjög mörgum tilvikum sl. tvö ár alveg eins getað gert það hvað ávöxtun snertir. Kannski horfir eitthvað betur með hana aftur núna, a.m.k. ef marka má verulega bætta ávöxtun lífeyrissjóðanna sjálfra á sínum tekjum, þ.e. skyldusparnaðinum. En sama er, ég er alls ekki viss um að hægt sé að nálgast þetta mál með þeim hætti sem hæstv. fjmrh. gerir, að nú sé þetta allt saman komið svo vel á legg og þátttaka almennings orðin svo mikil og almenn og föst í sessi að það sé óhætt að kippa þessu til baka. Ég er alls ekki viss um að svo sé.

Mér finnst þvert á móti að hæstv. ráðherra ætti að nálgast málið með þessari hugsun: Jú, þetta eru að vísu orðnir býsna miklir peningar, þ.e. hálfur milljarður á ári, af því að undirtektir almennings hafa verið svo gríðarlega góðar. Er það þá ekki gleðilegt og fínt og er það ekki það sem menn vildu? Jú, auðvitað. Efnahagslega er ekki nokkur minnsti vafi á því að það er mjög skynsamlegt og mjög æskilegt að þessi þróun haldi áfram. Það er mjög gott, bæði vegna framtíðarinnar þegar þarna verður á ferðinni sterkari tekjulegur grundvöllur þessa fólks þegar það fer á eftirlaun og líka vegna efnahagsástandsins í núinu og þess sem við blasir í þeim efnum. Þarna eru miklir fjármunir að fara úr umferð og færast yfir í sparnað. Er það ekki það sem alltaf er verið að tala um, að það vanti meiri sparnað á Íslandi, það sé of mikil eyðsla, of mikil neysla, of mikill viðskiptahalli? Jú. Og þetta er einmitt liður í að hamla með skynsamlegum hætti gegn því og byggja upp eignir á móti miklum og vaxandi skuldum. Heimilunum í landinu sem skulda tæp 180% af ráðstöfunartekjum veitir ekki af því að eiga einhvers staðar einhverjar eignir í handraðanum á móti. Það kemur sér mjög vel að það sé t.d. í traustum viðbótarlífeyrissparnaði. Ég hef því mjög miklar efasemdir um að þetta sé skynsamlegt eða að rétti tíminn til að fara í þessar breytingar sé a.m.k. nú. Það er dálítið merkilegt reyndar ef menn telja núna rétta tímann til þess að hverfa frá hverri hvatningaraðgerðinni á fætur annarri af þessu tagi. Má ég minna á að skattafsláttur vegna hlutabréfakaupa er líka að falla niður einmitt um þessar mundir. (Gripið fram í.) Féll reyndar niður í fyrra, já, er úr sögunni í ár en nýttist vegna kaupa á fyrra ári. Ég spyr hæstv. fjmrh.: Hefur hann engar efasemdir um að gera þetta allt samtímis? Mér finnst svolítið merkilegt að þetta kemur allt saman frá hægri mönnum. Mér finnst þetta vera á skjön við umræðuna eins og hún er um hagstjórnarmálin, hagstjórnarvandann sem fram undan er við að halda lokinu á pottinum og allt það. Það er mjög margt, herra forseti, sem mælir með því að skoða þetta mál vandlega og velta fyrir sér hvort ekki sé hyggilegt að fara öðruvísi að. Kannski er hægt að draga upp úr hæstv. fjmrh. hér að hann mundi fallast á að efh.- og viðskn. færi rækilega ofan í saumana á því hvort endilega væri skynsamlegt að gera þetta svona. Þessu má öllu saman breyta hér áður en fjárlög verða afgreidd í desember og stilla þetta öðruvísi af en ríkisstjórnin leggur til í þessum frv. og öðrum sem þeim tengjast.