Tryggingagjald

Fimmtudaginn 09. október 2003, kl. 11:28:01 (368)

2003-10-09 11:28:01# 130. lþ. 8.2 fundur 89. mál: #A tryggingagjald# (viðbótarlífeyrissparnaður) frv., SigurjÞ
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 130. lþ.

[11:28]

Sigurjón Þórðarson:

Virðulegi forseti. Enn á ný leggur hæstv. fjmrh. til að skattar verði hækkaðir en ekki lækkaðir þrátt fyrir fögur fyrirheit Sjálfstfl. í vor um að miklar skattalækkanir væru í vændum. Nei, núna leggur Sjálfstfl., nokkrum mánuðum síðar, til hverja tillöguna á fætur annarri um að hækka skatta. Fyrr í vikunni lagði hæstv. fjmrh. fram tillögu um að hækka þungaskattinn sem kemur sérstaklega illa niður á landsbyggðinni, bæði varðandi samkeppnisstöðu fyrirtækja og síðan vöruverð þar. Þetta eru ekki einu kosningaloforðin sem Sjálfstfl. og ríkisstjórnin vilja gleyma sem fyrst eftir kosningarnar. Nei, ég tel að frægasta kosningaloforðið sem verið er að ,,gleyma`` sé línuívilnun sem hæstv. forsrh. lofaði nú í haust. Ég er ekki einn um þá skoðun. Virðulegi forseti. Hv. 9. þm. Norðvest., Einar Oddur Kristjánsson, fullyrti á fundi vestur á Ísafirði að ef línuívilnun kæmi ekki til framkvæmda nú í haust væri hæstv. forsrh. að ganga á bak orða sinna. Eins og áður segir er ég sammála hv. þingmanni.

Í hvað ætlar Sjálfstfl. að verja auknu fé? Hæstv. fjmrh., sjálfstæðismaðurinn, ver m.a. fé til þess að ríkið greiði háar upphæðir til þess að loka sláturhúsum á landsbyggðinni. Með þessu er flokkur sem gefur sig út fyrir að vera flokkur einkaframtaks að taka ákvörðun um að ríkið hagræði í atvinnugreinum landsmanna. Sjálfstfl. væri meiri sómi að því að vinna sig út úr miðstýrðu landbúnaðarkerfi og veita fólki á sjávarbyggðinni, svo sem á Bíldudal, atvinnuréttindi til þess að nýta sér nálæg fiskimið.

Virðulegi forseti. Hætt er við að þessi aðgerð sem við erum að fjalla núna um geti leitt til þess að sparnaður dragist saman og það er það sem við þurfum síst á að halda nú um þessar mundir. Almennt um tryggingagjaldið, sem ég tel að við verðum að hafa í huga, vil ég segja að það er í raun lítið annað en launaskattur sem leggst á heildarlaunagreiðslur. Launagreiðandi skilar þessari skattgreiðslu til ríkisins rétt eins og staðgreiðslu tekjuskatts af heildarlaunum. Hækkun tryggingagjaldsins minnkar það svigrúm sem atvinnurekandi hefur til að greiða launafólki laun. Eftir því sem launagreiðslur eru hærra hlutfall af kostnaði fyrirtækja leggst hækkun tryggingagjalds með meiri þunga á fyrirtækin. Þau fyrirtæki þar sem launakostnaður er lágt hlutfall, eins og fram kom hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, munar minna um þessa hækkun. Því miður bitnar þessi hækkun oft og tíðum á minni fyrirtækjum.

Öll hækkun tryggingagjalds er í raun flatur skattur á öll laun. Tryggingagjaldið leggst að því leytinu til þyngra á launagreiðslur lágra launa vegna þess að áhrifa persónuafsláttar gætir ekki. Hækkun tryggingagjalds og það að persónuafsláttur fylgi ekki verðlagsþróun, eins og hefur gerst undanfarin ár, er í raun lítið annað en hlutfallslega auknar álögur á launagreiðslur þeirra sem hafa lægstar tekjurnar.

Öllum er ljóst að persónuafsláttur hefur ekki fylgt verðlagsþróun. Það hefur margoft komið fram. Það væri því fróðlegt að fá upplýsingar hjá hæstv. fjmrh. hvort tryggingagjald hafi hækkað á síðustu árum.