Tryggingagjald

Fimmtudaginn 09. október 2003, kl. 11:32:43 (370)

2003-10-09 11:32:43# 130. lþ. 8.2 fundur 89. mál: #A tryggingagjald# (viðbótarlífeyrissparnaður) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 130. lþ.

[11:32]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu. Engu að síður vil ég að sjónarmið mín í þessu máli komi fram.

Í fyrsta lagi vil ég segja að hæstv. fjmrh. hefur að mörgu leyti sýnt mikla framsýni varðandi lífeyrissjóði og lífeyrissparnað. Hann hefur viljað styrkja undirstöður lífeyrissjóðanna og viljað stuðla að hvatningu til lífeyrissparnaðar. Einmitt þess vegna veldur þetta frv. vonbrigðum. Með því er numin brott úr lögum heimild launagreiðanda til lækkunar tryggingagjaldi sem nýta á sem iðgjald á móti iðgjaldi launamanns í tilviki séreignarlífeyrissparnaðar.

Ég er andvígur þessu af þremur ástæðum. Í fyrsta lagi veldur þetta kjaraskerðingu hjá þeim einstaklingi sem í hlut á, kjaraskerðingu hjá launafólki.

Í öðru lagi. Þótt hér sé um lögbundin réttindi að ræða tengist þetta engu að síður kjarasamningum, óbeint að vísu. En ég hefði talið eðlilegt að taka þetta mál upp í tengslum við kjarasamninga.

Í þriðja lagi tel ég rangt að gera þetta við þær aðstæður sem við búum við núna, hugsanlega þenslu í efnahagslífinu. Í stað þess að draga úr hvata til sparnaðar á að efla þann hvata. Þetta frv. gengur í þveröfuga átt.