Tryggingagjald

Fimmtudaginn 09. október 2003, kl. 11:40:34 (372)

2003-10-09 11:40:34# 130. lþ. 8.2 fundur 89. mál: #A tryggingagjald# (viðbótarlífeyrissparnaður) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 130. lþ.

[11:40]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Við höfum í þessari umræðu farið vel yfir þetta mál og fyrir liggur að röksemdir hafa verið lagðar fram gegn þeim viðhorfum sem hæstv. ráðherra hefur og hann hefur auðvitað sín sjónarmið.

Ég vil hins vegar ítreka að ég tel að ekki sé tímabært að afnema þennan hvata. Ég hugsa að í framvindu þessa máls á þinginu muni Samfylkingin leggja fram tillögu um að hvatanum verði breytt þannig að hann komi ekki til skjalanna fyrr en komið er yfir 2%. Landsmenn hafa áfram þann mikla hvata sem er mótframlag launagreiðandans. En við þurfum á meiri sparnaði að halda, sérstaklega þegar vindur fram um kjörtímabilið. Þess vegna held ég að nota eigi þessa peninga til þess að hvetja menn til þess að spara umfram 2%. Ég get hins vegar ekki lagt mat á það á þessu stigi hversu mikil áhrif slík örvun kynni að hafa vegna þess að það helgast af því hversu hátt hlutfall af viðbótarsparnaðinum er t.d. núna í formi sparnaðar umfram 2%. En þær upplýsingar liggja ekki á lausu skilst mér.

Í annan stað, herra forseti, fannst mér hæstv. fjmrh. svolítið óheppinn að tala hér um hlutabréf og skattaívilnanir vegna þeirra. Þær voru eitt af því sem átti þátt í lyfta hlutabréfamarkaðnum á sínum tíma. Hæstv. ráðherra kemur núna og talar eins og að enn séu að verki þau lögmál sem leiddu til þess að aðgerðir ríkisins lyftu markaðnum á sínum tíma. Sá hvati var kannski ekki að öllu leyti fjarlægður en hann var minnkaður mikið. Og hvernig er hlutabréfamarkaðurinn í dag? Það er ekki nokkur maður að kaupa hlutabréf í dag. Það gera bara lífeyrissjóðir og menn sem heita Björgólfar. Það er bara þannig.