Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. október 2003, kl. 11:51:29 (375)

2003-10-09 11:51:29# 130. lþ. 8.3 fundur 88. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sérstakur tekjuskattur, viðmiðunarfjárhæðir o.fl.) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 130. lþ.

[11:51]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt hjá þingmanninum að hér var gerð ákveðin tilraun og hún tókst ekki nógu vel. Við skulum bara viðurkenna það. Það kom ekki út úr þeirri tilraun það sem menn höfðu vænst hvað varðar stofnun alþjóðlegra viðskiptafélaga sem mundu greiða skatta samkvæmt sérstökum reglum í ríkissjóð. Til verkefnisins var varið ákveðnum fjárhæðum og gerður um það samningur við Verslunarráð Íslands að standa að tiltekinni kynningu á málinu. Ég hef það því miður ekki handbært hversu kostnaðurinn við þetta er orðinn mikill en ég geri ráð fyrir að viðskrh. geti greint frá því þegar frv. um að leggja niður lögin sjálf kemur fram. (ÖJ: Það eru 50 milljónir.) Að þessu leyti til er þetta frv. fylgifrv. með hinu málinu vegna þess að hér er eingöngu verið að fjalla um þau atriði sem er að finna í skattalögum og varða félögin sem um gilda sérstök lög.