Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. október 2003, kl. 11:52:43 (376)

2003-10-09 11:52:43# 130. lþ. 8.3 fundur 88. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sérstakur tekjuskattur, viðmiðunarfjárhæðir o.fl.) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 130. lþ.

[11:52]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir miður að hæstv. fjmrh. geti ekki upplýst hvað þessi vanhugsaða tilraun kostaði. Það kann að vera að einhverjir séu í salnum hérna sem geti sagt okkur frá því hversu mikið Verslunarráðið fékk til að sýsla um þessi mál, en þetta var auðvitað algerlega fordæmanleg tilraun. Það var út í hött að fara með peningana á þennan hátt að fela einhverjum aðila úti í bæ að sjá um þetta. Það mætti auðvitað velta því fyrir sér, er það þeim aðila sem þetta var falið að kenna að svona illa fór? Ekki skal ég fjölyrða um það.

Hins vegar vil ég óska hæstv. fjmrh. til hamingju með að hafa nú þegar tekið á sig rögg og afnumið þessi félög vegna þess að ef ég man rétt, þá urðu þau einmitt til þess að íslenska ríkið var sett á sérstakan svartan lista hjá OECD yfir þau lönd sem höfðu búið til óæskilegt skattaskjól. Nú getum við horfið af þeim lista og því óska ég hæstv. ráðherra og ríkisstjórn til hamingju.