Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. október 2003, kl. 11:53:47 (377)

2003-10-09 11:53:47# 130. lþ. 8.3 fundur 88. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sérstakur tekjuskattur, viðmiðunarfjárhæðir o.fl.) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 130. lþ.

[11:53]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki rétt hjá þingmanninum að Ísland hafi verið sett á sérstakan svartan lista hjá OECD. Ég þekki þau mál afar vel vegna þess að sú vinna er unnin á vegum fjmrn. Hins vegar var þetta fyrirbæri, alþjóðaviðskiptafélög á Íslandi, sett á lista yfir það sem hugsanlega gæti talist hafa skaðleg áhrif í skattalegri samkeppni milli landa. En á svarta listann fór þetta aldrei, hv. þm., og hefði sjálfsagt aldrei farið hvort sem við hefðum afnumið lögin eða ekki. En um þetta verður að sjálfsögðu sjálfstæð umræða þegar flutt verður frv. um að afnema lögin en hér er eins og ég sagði eingöngu verið að fjalla um ákvæði skattalaganna hvað þessu viðvíkur.