Vandi sauðfjárbænda

Fimmtudaginn 09. október 2003, kl. 13:33:22 (386)

2003-10-09 13:33:22# 130. lþ. 8.94 fundur 74#B vandi sauðfjárbænda# (umræður utan dagskrár), Flm. AKG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 130. lþ.

[13:33]

Anna Kristín Gunnarsdóttir:

Hæstv. forseti. Í samningi landbrh. fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands við Bændasamtök Íslands um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum frá 11. mars árið 2000 eru settar fram eftirfarandi markmiðsgreinar, með leyfi forseta:

,,Að styrkja sauðfjárrækt sem atvinnugrein og bæta afkomu sauðfjárbænda,

að ná fram aukinni hagræðingu í sauðfjárrækt,

að sauðfjárrækt sé í samræmi við umhverfisvernd, landkosti og æskileg landnýtingarsjónarmið,

að halda jafnvægi milli framleiðslu og sölu sauðfjárafurða,

að efla fagmennsku, þekkingu og þróun í sauðfjárrækt.``

Eðlilegt er að samningsaðilar hafi sett mikilvægasta markmiðið í fyrirrúm við samningsgerðina, þ.e. að styrkja sauðfjárrækt sem atvinnugrein og bæta afkomu sauðfjárbænda. Það er hins vegar ljóst að leiðin sem valin hefur verið að því marki er kolröng því að greinin á nú í meiri erfiðleikum en nokkru sinni fyrr og sauðfjárbændur eru eina stétt landsins sem í heild má kalla fátæka. Hnignun greinarinnar mun að óbreyttu hafa í för með sér alvarlega byggðaröskun með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir mörg byggðarlög sem eru veikburða fyrir. Þær skyldur sem lagðar eru á herðar bændum að selja erlendis þriðjung framleiðslu sinnar eru einsdæmi í íslensku atvinnulífi og örugglega þótt víðar væri leitað. Jafnframt er með því lögð mikil pressa á sláturleyfishafa sem neyðast til að leggja í stórkostlegar fjárfestingar til að fullnægja kröfum viðskiptaaðila sinna. Ekki nóg með það, heldur telja forstöðumenn eins stærsta sláturhúss landsins sig munu þurfa að framkvæma fyrir 10--20 millj. árlega til að halda leyfinu. Verð sem bændur fá fyrir kjöt sem flutt er á Ameríkumarkað er 120--150 kr. fyrir kíló og það nægir ekki fyrir breytilegum kostnaði. Eftir því sem mér var tjáð í gærkvöldi hefur verðið lækkað síðan í fyrra. Aðrir markaðir eru svipaðir eða lítið eitt skárri þrátt fyrir að aðeins besta kjötið, hryggir, læri og fituminnsta kjötið, fari á markaði erlendis. Afgangurinn er á borðum okkar Íslendinga og spillir fyrir á besta markaðnum, þeim íslenska. Það er dagljóst að útflutningsskyldan er hengingaról um háls smærri bænda.

Annað markmið samningsins sem einnig hefur brugðist er að ná skuli jafnvægi milli framleiðslu og sölu sauðfjárafurða. Formaður landbn. mun ætíð hafa haldið því fram að samningurinn væri framleiðsluhvetjandi, sem hefur komið í ljós, og það er reyndar athyglisvert að formaður nefndarinnar talaði um þennan samning eins og um stjórnarandstæðing væri að ræða á fjölmennum bændafundi Samfylkingarinnar á Hellu sl. mánudagskvöld. Formaðurinn er reyndar sauðfjárbóndi og gerir sér grein fyrir bláköldum veruleikanum.

Hæstv. forseti. Það er ekki ástæða til að halda að það hafi verið vilji landbrh. að svo færi með sauðfjárbúskap sem raun er orðin, enda hefur hann, eins og kunnugt er, sett á fót nefnd til að bregðast við neyðarástandi innan stéttarinnar. Sú nefnd á að skila niðurstöðum fljótlega og mun því væntanlega aðeins taka á bráðavanda greinarinnar. Því spyr ég hæstv. ráðherra:

Hvað hyggst ráðherra aðhafast til að tryggja að sauðfjárbændur geti áfram gegnt sínu mikilvæga hlutverki við að halda landinu í byggð? Telur ráðherra verjandi að skylda eina starfsstétt í landinu til að flytja allt að 38% framleiðslu sinnar á markað þar sem verðlag dugir ekki fyrir breytilegum kostnaði við framleiðsluna og bera því allan kostnað sjálfa? Telur ráðherra líklegt að útflutningur lambakjöts geti í náinni framtíð skilað bændum viðunandi verði fyrir framleiðslu sína og jafnframt staðið undir 10--20 millj. kr. árlegum kostnaði útflutningssláturhúsa við að halda útflutningsleyfi?