Vandi sauðfjárbænda

Fimmtudaginn 09. október 2003, kl. 13:43:45 (388)

2003-10-09 13:43:45# 130. lþ. 8.94 fundur 74#B vandi sauðfjárbænda# (umræður utan dagskrár), ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 130. lþ.

[13:43]

Þuríður Backman:

Virðulegi forseti. Það hefur legið fyrir um nokkurra ára skeið að staða sauðfjárbænda væri að veikjast, í fyrsta lagi tekjulega og einnig sem atvinnugreinar. Mjög margir þættir hafa haft áhrif á þessa þróun en nú er staða flestra sauðfjárbænda orðin svo veik að ekki verður vikist undan því að nú þegar verði gripið til bráðaaðgerða til að verja kjör sauðfjárbænda svo að ráðrúm skapist til að móta framtíðarstefnu í málefnum landbúnaðarins eins og Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur talað fyrir.

Frú forseti. Hvers vegna þarf að verja afkomu sauðfjárbænda með opinberum aðgerðum? Það er nauðsynlegt til þess að halda uppi byggð og búskap í landinu til langrar framtíðar. Sauðfjárbúskapur er undirstaða búsetu í mörgum landshlutum og má ætla að erfitt eða ómögulegt verði að finna jafnstöðugan atvinnurekstur eða aðra atvinnustarfsemi sem gæti komið í hans stað víða um land. Ef meiri grisjun verður á sauðfjárbúum verður erfiðara fyrir þá sauðfjárbændur sem eftir eru að halda áfram við búskap og eins mun það hafa víðtæk félagsleg áhrif fyrir aðra íbúa í viðkomandi sveitarfélagi og veikja rekstrargrunn ýmissa fyrirtækja og þjónustu á viðkomandi svæði. Erfiður rekstur afurðastöðvanna hefur haft mikil áhrif á sauðfjárbúskapinn og það mun ekki bæta stöðu sauðfjárbænda að fækka enn afurðastöðvunum undir formerkjum hagræðingar í rekstri nokkurra stórra stöðva. Langur akstur með sláturfé og flutningar yfir sauðfjárvarnalínur er neikvætt á margan hátt og ættum við að horfa til þess að auðvelda bændum að reka sjálfir afurðastöðvar og möguleika á rekstri smærri afurðastöðva í heimabyggð.