Lax- og silungsveiði o.fl.

Fimmtudaginn 09. október 2003, kl. 15:41:49 (414)

2003-10-09 15:41:49# 130. lþ. 8.4 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv., KolH
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 130. lþ.

[15:41]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegur forseti. Hæstv. landbrh. hefur gert grein fyrir rökum sínum fyrir bráðabirgðalögunum sem sett voru í sumar og voru sannarlega mikið deilumál strax og sett voru því þá upphófust greinaskrif og talað var við fólk í fjölmiðlum sem varaði við lagasetningu í þessa veru. Það var reyndar búið að gera áður. Við þekkjum það þingmenn sem sátum í þessum sal í vor að gríðarlega miklar deilur voru og mörg hættumerki komu upp hjá þingmönnum þegar hæstv. landbrh. sýndi frv. í vor. Það var ástæðan fyrir því að frv. var á endanum frestað vegna þess að hér er um gríðarlega afdrifaríkt mál að ræða sem er stórhættulegt fyrir náttúru Íslands og ég leyfi mér að fullyrða, herra forseti, að standi í hróplegu ósamræmi við og sé hreinlega brot á 1. gr. laga um náttúruvernd. Áður en ég rökstyð það nánar, herra forseti, tel ég rétt að rifja upp 1. gr. náttúruverndarlaganna. Hún er svo, með leyfi forseta:

,,Tilgangur þessara laga er að stuðla að samskiptum manns og umhverfis þannig að hvorki spillist líf eða land né mengist sjór, vatn eða andrúmsloft.

Lögin eiga að tryggja eftir föngum þróun íslenskrar náttúru eftir eigin lögmálum, en verndun þess sem þar er sérstætt eða sögulegt.

Lögin eiga að auðvelda umgengni og kynni þjóðarinnar af náttúru landsins og menningarminjum og stuðla að vernd og nýtingu auðlinda á grundvelli sjálfbærrar þróunar.``

Herra forseti. Ég leyfi mér að fullyrða að bráðabirgðalög hæstv. landrh. stríða gegn þessari grein og þau stríða gegn stefnumörkun ríkisstjórnarinnar um sjálfbæra þróun. Laxeldi af því tagi sem hæstv. landbrh. hefur verið að heimila upp á síðkastið á ekkert skylt við sjálfbæra atvinnustefnu eða sjálfbæra atvinnuvegi. Hvers vegna ekki? Jú, það er vegna þess að eldislaxinn er af norskum stofni sem í 30 ár er búið að rækta og erfðabreyta þannig að hann geti vaxið hratt en orðið kynþroska seint. Sannleikurinn er sá að hann er eins langt frá íslensku stofnunum sem okkur er uppálagt að vernda og hugsast getur.

Ég segi að þessi atvinnuvegur, eins og hann er framkvæmdur hér, sé ekki sjálfbær. Máli mínu til stuðnings vil ég nefna að sjálfbær þróun byggir á því að náttúra Íslands geti þróast út frá eigin lögmálum. Þegar lax sleppur úr eldi, lax af erlendum uppruna, leitar hann upp í árnar. Það hefur nú sannast þar sem vitað er að sjö laxar hafa nú þegar veiðst í laxveiðiám á Austurlandi, m.a. í einni af dýrmætustu ám Íslendinga og skaðinn sem þessir laxar geta valdið á náttúrulegu lífríki og á klaki sem þegar er komið af stað í þessum náttúrulegu ám er gífurlegur. Við erum að tala um atvinnugrein sem byggir á þessum laxastofnum okkar sem eru afar viðkvæmir og eru búnir að lifa hér í sátt við landið í 10 þúsund ár og laxarnir sem byggja upp þann stofn eða þá stofna þola ekki ágang eldislaxanna á þeim nótum sem ljóst er að eldislaxar sýna náttúrlegu lífríki.

[15:45]

Það er út af þessu sem mönnum brá í brún þegar hæstv. landbrh. setti bráðabirgðalögin í sumar. Við töldum að við fengjum tækifæri til að ræða þessi mál nánar, það yrði farið betur ofan í saumana á þeim og við mundum fá að skoða þau út frá öllum hliðum. Það var ekki leyft. Hæstv. ráðherra ber við Evróputilskipuninni og áminningum frá Eftirlitsstofnun EFTA. Ég leyfi mér að fullyrða það hér, herra forseti, að hæstv. landbrh. hafi ekki gert allt sem í hans valdi stóð til að fá endurnýjaða undanþáguna. Ég vil meina að undanþágan sem heimild er fyrir í tilskipuninni byggi á samningnum um líffræðilegan fjölbreytileika. Við erum skuldbundin af alþjóðasamningum sem settir voru í Ríó árið 1992 og þar er samningurinn um líffræðilegan fjölbreytileika. Það er mjög mikilvægur samningur og ég fullyrði að ríkisstjórn Íslands hafi trassað að leiða þann samning í lög. Þessi bráðabirgðalög stríða gegn þeim samningi og ég tel, og ég hef ástæðu til að ætla það, að hæstv. landbrh. og ríkisstjórn Íslands hefðu getað sótt undanþáguheimild á grundvelli þessa samnings ef rétt hefði verið að málum staðið, ef byrjað hefði verið á því í tíma og ef unnið hefði verið af mikilli einlægni í því máli.

Ég gagnrýni líka ríkisstjórnina fyrir annað sem ég hef reyndar áður gert úr þessum stóli, þ.e. að beita sér ekki fyrir því að eldi af þessu tagi lyti lögum um mat á umhverfisáhrifum. Það er auðvitað þyngra en tárum taki að lögin um mat á umhverfisáhrifum skyldu hafa farið þannig í gegnum hið háa Alþingi að stærðartakmörkin á eldisstöðvum, hafbeitarstöðvum, væru svo há að það væri möguleiki að heimila undanþágur frá umhverfismati. Nú hefur það sýnt sig að bæði eldi í Mjóafirði og Berufirði fór í gegn án mats á umhverfisáhrifum. Eldi í Reyðarfirði laut reyndar mati og ég held að hæstv. ráðherra væri hollt að lesa fyrstu blaðsíðurnar af úrskurði Skipulagsstofnunar, jafnvel í matsskýrslunni, því að þar kemur fram afar margt sem skiptir sköpum í þessu máli sem segir að það sé gífurlega mikil hætta á því að laxeldi af því tagi sem hér er verið að heimila geti skaðað íslenska laxastofninn.

Hvað erum við að tala um þegar við minnumst á skaða á þessum íslenska villta laxastofni? Við erum að tala um atvinnugrein sem lögbýli úti um allt land byggja afkomu sína á. Milli 1.800 og 1.900 lögbýli á landinu byggja stóran hluta af tekjum sínum á hlunnindum sem skapast vegna laxveiði í laxveiðiánum okkar. Við erum að tala um ár sem að verðmæti eru kannski 30 milljarða kr. virði. Hér er því ekki lítið undir, herra forseti. Hér verður gífurlegur skaði ef heldur fram sem horfir. Þetta skaðar byggðina í sveitunum sem hæstv. ráðherra í annan tíma talar um af mikilli virðingu og segir okkur með opnu hjarta og mikilli einlægni í augum að hann vilji hafa öfluga og sterka. En þá getur hann ekki á sama tíma ógnað henni eins og hann er að gera með þeim lögum sem hér eru sett. Við verðum að krefjast þess að hér sé trúverðug stefna rekin í þessu tilliti en í sannleika sagt hefur mér ekki fundist það vera í þessu máli, herra forseti.

Ég ætla aðeins að fá að fara yfir, herra forseti, það sem mér finnst skipta mestu máli í þessu fyrir utan það sem ég nú hef rakið. Það er varðandi það sem hæstv. ráðherra segir um hættuna á sjúkdómum. Hann leggur afar mikla áherslu á það að hér sé verið að girða fyrir hættu á smitsjúkdómum eins og best verður á kosið. Hann fer samt afar lítið í það, herra forseti, að viðurkenna hættuna sem lífríkinu stafar af þessum framandi stofnum.

Vitneskjan um farleiðir laxa er takmörkuð en þó hefur komið fram í rannsóknum að laxar geta ferðast frá eldiskví allt að 2.000 km undan hafstraumi. Og hvað gerir lax sem sleppur úr kví, segjum t.d. hérna fyrir austan land? Hann ferðast undan straumi og leitar eftir þeirri lykt sem honum er í blóð borin, þ.e. lyktinni af laxi. Hann eltir þá lykt upp í hvaða á sem er. Laxinn sem slapp úr kvíunum í Norðfirði í haust var kynþroska að miklu leyti og eðlishvöt hans leiðir hann beina leið upp í árnar og þar rótar hann í náttúrulegum hreiðrum og kemur mögulega í veg fyrir að hrognin sem þar voru að búa sig undir að verða seiði geti átt frekari lífdaga fyrir höndum. Hæstv. ráðherra verður að horfast í augu við það að eldislaxarnir fara upp í árnar. Það er alveg sama hversu mikil eða lítil fjarlægðin er, þeir leita upp í ár í allt að 2.000 km fjarlægð frá þeim stað þar sem þeir sleppa. Þetta hafa norskar rannsóknir leitt í ljós. Við vitum alveg hvernig laxveiðiánum hefur fækkað í veröldinni og við vitum líka að það er vegna hættunnar sem stafar af laxeldinu sem villtu laxastofnarnir hafa orðið undan að láta.

Það má leiða að því rök, herra forseti, að af náttúrulegum virkum laxveiðiám í veröldinni sé helmingur til staðar á Íslandi. Hér er um að ræða auðlind og náttúruauðæfi sem okkur ber að vernda og okkur ber að leggja okkur í líma við það vegna þess að veröldin öll, heimsbyggðin öll, á þá kröfu á okkur að við gerum allt sem í okkar valdi stendur til þess að íslensku villtu laxastofnarnir lúti ekki í lægra haldi fyrir erlendum eldisstofnum. Það er þessi mikla ábyrgð sem hvílir á ráðherranum og honum ber að nýta öll þau tæki og öll þau tækifæri sem honum eru í hendi til þess að tryggja að íslensku laxastofnarnir fái lifað og að vöxtur þeirra og viðgangur verði tryggður.

Hæstv. ráðherra talar gjarnan eins og hann sé sterkasti og öflugasti boðberi þessarar verndunar sem ég nú tala fyrir. En þar gætir sannarlega tvískinnungs í málflutningi hæstv. ráðherra. Ef hann vill í alvöru vernda villtu laxastofnana hér við land hagar hann sér ekki eins og hann gerir með þessum bráðabirgðalögum. Þá fer hann öðruvísi að. Þá viðheldur hann því ákvæði sem hefur verið í lögum, að það eigi að vernda þessa laxastofna okkar. Mér finnst mjög alvarlegt, herra forseti, að í reglugerðafarganinu sem sett er í kringum þessi bráðabirgðalög sé eina mjög lúmska setningu að finna frá hæstv. ráðherra --- hún er vegna breytinga á reglugerð nr. 105/2000, um flutning og sleppingar laxfiska og varnir gegn fisksjúkdómum og blöndun laxastofna --- hann segir í þessari reglugerð sem er nýsett, þ.e. hún er frá 16. júlí 2003, að 4. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 105/2000 falli niður. Og við skulum spyrja okkur hver stærsti málsliðurinn sé. Það er einmitt sá sem varðar sleppingar laxfiska af erlendum uppruna. Hún hljóðaði svo, með leyfi forseta:

,,Sleppingar laxfiska af erlendum uppruna í fiskrækt og hafbeit eru óheimilar.``

Þetta er reglan sem við bjuggum við, reglan sem Alþingi hafði sett og sem við vorum sátt við að lifa við. Við töldum þessa þekkingu vera lykilatriði í því að vernda stofnana okkar. Þessi málsgrein hefur nú verið felld út úr reglugerðinni. Nú eru sem sagt heimilar sleppingar laxfiska af erlendum uppruna í fiskrækt og hafbeit. Það er nákvæmlega þetta sem stefnir laxfiskunum okkar, villtu stofnunum í veiðiánum okkar, í voða. Og hæstv. ráðherra getur ekki talað eins og hann sé postuli verndar þessara stofna þegar hann á sama tíma fellir mikilvægustu vörnina okkar niður úr lögum og reglugerðum. Ég vil inna hæstv. ráðherra eftir því hvað varð um heiðursmannasamkomulagið sem undirritað var 25. október 1988 eftir að sú nefnd lauk störfum sem þáv. landbrh. Jón Helgason hafði skipað. Þá nefnd skipuðu þeir Guðmundur G. Þórarinsson, Böðvar Sigvaldason, Árni Ísaksson og Rafn Hafnfjörð og nefndin átti að leita ráða hjá færustu vísindamönnum þeirra tíma varðandi athafnir fiskeldismanna sem vildu freista gæfunnar á þeim tíma með eldi á norskum laxi. Það hafði verið gagnrýnt á þeim tíma af veiðiréttareigendum, stangveiðimönnum og verndarsinnum þannig að við erum ekki með nýja umræðu í gangi hér og nú. En heiðursmannasamkomulagið var undirritað 25. október 1988. Það gekk út á að ekki þætti fært að taka áhættu sem skaðað gæti íslenska náttúru í bráð og lengd. Það var sem sagt samkomulag um það 1988 að norskættuð hrogn, seiði eða lax, færu aldrei í hafbeit eða til eldis í sjókvíum við strendur Íslands. Og ég spyr hæstv. ráðherra: Hvað hefur breyst frá 1988? Hvenær var þessu heiðursmannasamkomulagi rift? Það er sannarlega orðið tímabært að hæstv. landbrh. svari okkur því því að þetta heiðursmannasamkomulag er ekki nýtt í umræðunni. Við fengum það sent, alþm., sl. vor þegar málið var til umfjöllunar og það skiptir verulegu máli að hæstv. ráðherra segi okkur hvers vegna afdrif þess hafa orðið þau sem raun ber vitni.

Hæstv. ráðherra talar mikið um að hér séu strangar reglur. Hann segir að hér búi laxeldið við ströngustu reglur í heimi. Hann segir að kvíarnar séu þannig gerðar að fylgst sé með því að lax sleppi ekki úr þeim. Sannleikurinn í því máli, herra forseti, er sá að eldiskvíarnar okkar hér eru nákvæmlega sams konar kvíar og eru notaðar í Noregi og Færeyjum. Í Noregi viðurkenna meira að segja eldismenn að 1% laxfiska sleppi úr kvíunum. Herra forseti. Ef það gerist í Noregi gerist það líka hér. Og hvað er 1% af því sem sett er í kvíarnar í dag? Það eru sennilega um það bil 60 þús. laxar. Það er, herra forseti, jafnmikill fjöldi og talið er að allir íslensku laxastofnarnir innihaldi. Við erum að tala um að það megi sleppa úr þessum kvíum jafnmörgum löxum og íslenski laxastofninn telur. Hvernig getur svo ráðherrann haldið því fram að hér séu svo strangar reglur að laxinn sleppi ekki úr kvíunum? Hvernig getur hann líka með nokkrum rétti haldið því fram að laxarnir sem sleppa úr kvíunum fari ekki í laxveiðiárnar okkar? Jafnvel þótt hann hafi með reglugerðum lokað ákveðnum fjörðum fyrir laxeldi er það bara einu sinni þannig að laxinn þekkir ekki reglur hæstv. landbrh. Laxinn fer í þær ár sem honum sýnist án þess að spyrja kóng eða prest eða hæstv. landbrh. Guðna Ágústsson. (Landbrh.: Og lög Alþingis.) Laxinn kann ekki heldur að lesa lög Alþingis, það er alveg rétt.

Sannleikurinn er sá að það eru aðferðir við að bjarga okkur út úr þessum voða. Þær aðferðir eru t.d. að setja kvíarnar upp á land. Hæstv. ráðherra sagði í fyrirspurnatíma á mánudaginn var að þar með yrði atvinnuvegurinn ekki arðbær. En þá fullyrði ég líka að ef hann er ekki arðbær með því að náttúru Íslands sé borgið með þennan atvinnuveg í túninu heima er þessi atvinnuvegur heldur ekki sjálfbær. Þá verðum við að endurskoða hann. Og þá verðum við bara að setja krafta okkar í eldismálum á annan stað, t.d. í áframhaldandi lúðueldi sem fer fram á landi og skaðar ekki óspillta náttúru. Hæstv. ráðherra verður að fara að skoða það í alvöru hvað framtíðarstefna ríkisstjórnarinnar til 2020 um sjálfbæra þróun þýðir. Hún þýðir nákvæmlega það að gera atvinnuvegina okkar sjálfbæra. Laxeldi sem hæstv. landbrh. hefur verið að heimila er ekki sjálfbært. Það er bara svo einfalt, og stríðir þess vegna gegn stefnu ríkisstjórnarinnar varðandi framtíðarþróun.

Það er líka athyglisvert það bann sem hæstv. ráðherra hefur sett um laxeldi í fjörðum landsins, þar sem hann telur að laxveiðiám geti stafað hætta af því hefur hann samt bara bannað eldi á frjóum laxi. Veit ekki hæstv. ráðherra að ófrjór lax getur valdið jafnmiklum skaða á náttúrulegum búsvæðum laxins eins og sá frjói? Og ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hvers vegna er ekki líka sett regla um það að laxinn sem er í eldinu fyrir austan sé ófrjór?

Það má kannski spyrja líka, herra forseti: Hversu margir laxar hafa verið settir út í kvíarnar fyrir austan og hvers vegna hafa ekki fengist upplýsingar um það hversu margir laxar hafa farið í kvíarnar? Það hafa heldur ekki fengist upplýsingar um það hversu stór hundraðshluti þeirra er merktur og það fást heldur ekki upplýsingar um hversu miklu er slátrað, þ.e. eftirlitsaðilum eða almenningi sem gjarnan vildi fylgjast með þessum málum eru ekki heimilaðar eða aðgengilegar þær upplýsingar sem eðlilegt getur talist að ,,verðir náttúrunnar`` fái hjá stjórnvöldum. Hæstv. ráðherra verður að gera þingheimi grein fyrir því hér hvers vegna þessar upplýsingar liggja ekki á lausu. Þetta er auðvitað grundvallaratriði til þess að við getum fylgst með mögulegum sleppingum.

Það má líka spyrja hvers vegna við lærum ekki af reynslunni. Laxinn sem slapp hérna um árið við Faxaflóa fór ekki til Færeyja eins og hæstv. ráðherra er að vona að laxarnir frá Neskaupstað geri. Hvert fór hann? Hann fór upp í árnar okkar hér í flóanum. Þetta vita allir. Þetta veit ráðherrann og þetta vita allir. Hvers vegna lærir hæstv. ráðherra Guðni Ágústsson ekki af reynslu okkar? Það er kominn tími til að málin verði hér skoðuð af kostgæfni og farið faglega og vísindalega yfir öll þau rök sem hafa komið gegn þessum bráðabirgðalögum og ég gagnrýni það flaustur sem haft var á setningu þeirra. [Klapp frá þingpöllum.]

(Forseti (BÁ): Ég bið gesti á þingpöllum að hafa sig hæga.)