Lax- og silungsveiði o.fl.

Fimmtudaginn 09. október 2003, kl. 16:10:18 (419)

2003-10-09 16:10:18# 130. lþ. 8.4 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv., ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 130. lþ.

[16:10]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Virðulegi forseti. Ég man þá tíð þegar setning bráðabirgðalaga var nánast daglegt brauð við stjórnun þessa lands á áttunda áratugnum og fram á þann níunda. Þá ríktu jú að einhverju leyti aðrar aðstæður bæði í efnahagsmálum og í landsstjórninni, en bráðabirgðalögin voru notuð og ofnotuð eins og allir vita.

Það er margt sem ég á erfitt með að botna í í þessu máli. Ég botna þó vel í þeim mikla vanda sem hæstv. landbrh. er búinn að koma sér í. En hvaða brýna þörf var á því, herra forseti, að setja bráðabirgðalög í sumar? Ekki síst í ljósi þess að hið háa Alþingi situr allan ársins hring og flest eigum við auðvelt með að koma okkur í vinnuna ef til okkar er kallað.

Í fskj. I með því frv. sem hér um ræðir stendur, með leyfi forseta:

,,Íslensk fyrirtæki hafi að undanförnu flutt út eldisfisk og hrogn til Skotlands, Írlands og annarra aðildarríkja Evrópusambandsins í ört vaxandi mæli. Viðskiptabann þetta`` --- þ.e. það sem sett hafði verið á á grundvelli EES-samningsins -- ,,tefli í tvísýnu rekstrargrundvelli þessara fyrirtækja og valdi þeim og íslensku fiskeldi miklum álitshnekki. Í húfi séu miklir fjárhagslegir hagsmunir og tugir starfa, enda blasi uppsagnir við ef ekkert verði að gert.``

Ég sé ekki betur, herra forseti, en að í þessu frv. sé falin sértæk aðgerð eins og það er stundum kallað í þessum sölum, sértæk aðgerð til að bjarga að því er virðist tilteknum hagsmunum, útflutningshagsmunum, sem sagðir eru brýnir og færðir hér sem rök fyrir setningu þessara bráðabirgðalaga. Og ég sé ekki betur í mínum gögnum, t.d. í þeim gögnum sem hv. landbn. hefur undir höndum, en að hinir verulegu útflutningshagsmunir séu aðalástæðan fyrir setningu þessara bráðabirgðalaga. Nú má vel vera, hæstv. forseti, að ég hafi rangt fyrir mér en hins vegar sé ég ekki betur á þeim gögnum sem ég hef í höndunum en að hinir miklu útflutningshagsmunir séu hér í forgrunni.

Og sé það þannig, hæstv. forseti, þá er aðalástæðan um að uppfylla EES-samninginn í raun og veru bara aukaástæða. Hún er þá ekki aðalástæðan þó svo að við í raun vitum öll og séum þess fullviss að við þurfum að fullgilda þann samning og fara eftir honum, undir það höfum við gengist, en ég get ekki séð að það sé aðalástæðan fyrir setningu þessara bráðabirgðalaga.

Nú vita allir Íslendingar að við getum ekki flutt heimilisdýrin okkar inn til landsins nema undir ströngu eftirliti og þau eru sett í einangrun, hvort sem það eru hundar eða kettir eða önnur dýr, og við vitum líka öll að hér eru þessar reglur með því strangasta sem þekkist. Bara í því ljósi er sú opnun sem hér er verið að gera bæði óskiljanleg og auðvitað mjög varasöm.

Í gögnum sem ég hef hér úr landbn. er talað um að viðhalda hreinleika íslenskrar náttúru, þar með talið heilbrigði dýrastofnanna sem lifa í landinu með okkur. Ég sé ekki betur en að með þessari opnun séum við að stefna því heilbrigði og þeirri sérstöðu og þeim villtu laxastofnum sem finnast í íslenskum ám í beinan voða.

[16:15]

Það er mjög langt seilst í röksemdafærslunni fyrir þessum bráðabirgðalögum. T.d. er sagt, það er ekki einu sinni látið að því liggja, herra forseti, heldur er fullyrt, með leyfi forseta, ,,að íslenskir laxastofnar hafi aldrei búið við algjöra einangrun. Það er örugglega hægt að færa fyrir því vísindaleg rök að þeir hafi aldrei búið við algjöra einangrun frekar en annað líf hér á landi``. En að nota síðan þau rök til þess að segja að innflutningsbann á erlenda laxastofna komi ekki í veg fyrir hættu á erfðablöndun, hún sé og verði til staðar þrátt fyrir setningu bráðabirgðalaga og skuldbindingar EES-samningsins.

Ég er búin að leggja mig alla fram, hæstv. forseti, að reyna að skilja þetta allt saman. Ég skil þetta ekki. Ég skil ekki með hvaða rökum er hægt að styðja þessa lagasetningu. Eru það útflutningshagsmunirnir? Er það þannig að það sé hvort eð er engum hreinleika fyrir að fara og erfðablöndunin eigi sér þegar stað, sem reyndar virðist því miður hafa gerst í Norðfirði. Þá hljótum við að spyrja, hæstv. forseti: Eru þetta boðleg rök í þessu máli? Eins og fram hefur komið, m.a. í máli hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur, eru hér gífurlegir hagsmunir í húfi. Þá er ég ekki bara að tala um hagsmuni þeirra sem eiga veiðiréttindi í veiðiám eða hinna dreifðu byggða heldur hagsmuni íslenskrar náttúru og dýralífsins sem þrífst hér á landi og í sjónum í kringum landið. Við höfum líka undirgengist það, herra forseti, að gæta hagsmuna þeirra, ef þannig má að orði komast, sem eru auðvitað hagsmunir okkar allra, m.a. með því að lögleiða samninginn um líffræðilega fjölbreytni sem áður hefur verið minnst á í þessari umræðu.

Ég vil líka benda á það, hæstv. forseti, að við höfum fullar heimildir og fulla ástæðu til þess að beita fyrir okkur, í þágu náttúruverndar, þeim alþjóðasamningum sem við erum aðilar að. Við eigum ekki að flækja okkur þannig í EES-samningnum að hann komi í veg fyrir að meiri hagsmuna okkar sé gætt. Þeirra getum við gætt með vísan t.d. til alþjóðasamninga eins og samningsins um líffræðilegan fjölbreytileika. Það er líka ljóst, hæstv. forseti, að hægt er að grípa til verndaraðgerða til þess að viðhalda rótgrónum dýrastofnum hér á landi. Þær heyra ekki undir EES-samninginn þegar vandlega er að gáð. Þannig að ég sé ekki betur en það sé algerlega á hendi löggjafans að vernda hina villtu íslensku laxastofna, það þurfi ekki að finna blóraböggla í embættismönnum eða samningum sem við höfum gert í Brussel við Evrópusambandið til þess að koma þessu í gegn. Það er engin ástæða til þess. Ég vil líka ítreka það að hinar margnefndu tilskipanir Evrópusambandsins sem streyma hingað inn, eins og hv. þm. þekkja, eru forsagnir, rammar að löggjöf og forsagnir að því hvernig skuli laga íslenska löggjöf að ákveðinni rammalöggjöf innan Evrópusambandsins. Það er á okkar valdi að útfæra þessar tilskipanir en ég og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir höfum af því talsverða reynslu eftir setu okkar í umhvn. Alþingis að fara í gegnum það hvernig tilskipanir á sviði umhverfismála hafa annaðhvort verið rangtúlkaðar, oftúlkaðar, illa túlkaðar eða hreinlega ekki lesnar þegar farið var að semja frv. sem þeim þurfti að fylgja. Þess vegna geri ég mikinn fyrirvara við að allt það sem hér um ræðir eigir uppruna sinn í EES-samningnum og að ekki hafi verið hægt að framlengja undanþáguna margumtöluðu.

Hæstv. landbrh. er ef eitthvað, ekki handbendi Brusselvaldsins og ég trúi því hreinlega ekki að hann komi í ræðustól hins háa Alþingis í skjóli þess valds sem hann hefur líklega allra manna hér inni mestan ímugust á. Væri ekki betra, hæstv. forseti, að segja okkur þingmönnum hvers vegna svona brýn ástæða var til að setja þessi bráðabirgðalög í sumar? Ég hef ekki fengið fullgild rök fyrir því í málflutningi hæstv. landbrh. en ég vænti þess að í þessari umræðu og þeirri næstu og í umfjöllun hv. landbn., sem ég á sæti í, komumst við til botns í málinu, því að það er alveg ljóst að hér er verið að tefla á tæpasta vað. Okkar er að ákveða hvort villtir laxastofnar við Ísland fái að njóta vafans í hinni alþjóðlegu umhverfislöggjöf, hvort við ætlum að beita henni fyrir okkur eða láta aðra hagsmuni ráða.

Að lokum, hæstv. forseti, verður heldur ekki hjá því komist að rifja upp hvaðan öll þessi vandræði hæstv. landbrh. eru runnin. Þau eru runnin undan rótum þess að leyfa sjókvíaeldi við strendur Íslands. Við gætum sett á langar ræður um það en skulum ekki gleyma því að sú atvinnugrein, sjókvíaeldi við strendur Íslands, er ekki vandalaus eins og þetta frv. til laga sýnir okkur.