Lax- og silungsveiði o.fl.

Fimmtudaginn 09. október 2003, kl. 16:24:59 (421)

2003-10-09 16:24:59# 130. lþ. 8.4 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv., ÞSveinb (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 130. lþ.

[16:24]

Þórunn Sveinbjarnardóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Rök hæstv. landbrh. hafa ekki sannfært mig. Hann nefndi Evrópudómstólinn og kannski þyrfti að fá skorið úr um þetta mál fyrir dómstólum. Það má vera, ég ætla ekki að útiloka það. En í öðrum dómi sem fallið hefur í Evrópudómstólnum og fjallar um býflugnamálið, frá 1998, er kveðið á um að hægt sé að stofna sérstök verndarsvæði með innlendri löggjöf. Nú er ég ekki lögfræðingur, hæstv. forseti, en ég hygg að með þá miklu hagsmuni í huga sem við stöndum frammi fyrir, hagsmuni um líffræðilegan fjölbreytileika, um hreina dýrastofna, hreina náttúru og allt annað sem hefur verið nefnt í umræðunni og á grunni samnings um líffræðilega fjölbreytni, hljótum við að hafa fulla tösku af rökum fyrir því í Brussel að hér þurfi að hafa þessa hluti með öðrum hætti en samkvæmt tilskipuninni sem þessi lög byggjast á.