Lax- og silungsveiði o.fl.

Fimmtudaginn 09. október 2003, kl. 16:26:30 (422)

2003-10-09 16:26:30# 130. lþ. 8.4 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 130. lþ.

[16:26]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hygg að þetta mál hafi getað farið inn á allar þær afurðir, þess vegna sjávarafurðir, lambakjötið sem við ræddum í dag o.s.frv. En að allt Ísland væri bara í skammarkróknum í Brussel, þykir mér óásættanlegt. Þess vegna treysti ég mér til að fylgja eftir þeim lögum og reglum sem við erum hér að setja og verja hagsmuni. Eru engir hagsmunir í fiskeldinu? Það kann vel að vera að mönnum finnist það. En Stofnfiskur hefur verið að selja út norska laxinn eða hrogn úr honum fyrir 300 millj. Það er búið að stofna til laxeldis á Austurlandi þar sem ekkert hefur klikkað, þar hefur ekkert sloppið út. Þessi aulaháttur á Norðfirði var lax úr Eyjafirði sem þeir voru að flytja til slátrunar og héðan í frá slátra þeir ekki með þeim hætti að hafa sjókví við höfnina þegar þeir eru að dæla þeim beint á land. En þeir eru búnir að leggja í pottinn að verðmæti sennilega tveggja milljarða.

Lúðueldið er að skila 400 millj. Menn eru að fara af stað með þorskeldi og trúa á það. Í bleikjueldinu erum við fremstir í veröldinni og í lúðueldinu. Bleikjueldið er að skila sennilega einum milljarði. En vissulega eru hér hagsmunir sem við verðum að líta á út frá atvinnu- og þjóðarhagsmunum. Um leið og við treystum okkur að varða þá leið sem ég er að leggja til, að lágmarka alla áhættu gagnvart laxveiðiánum þegar við fórum með laxeldi í sjó í þessum takmörkuðu fjörðum, viðurkenni ég að menn tóku ákveðna áhættu. Þess vegna þarf auðvitað að slátra laxinum áður en hann verður kynþroska og standa sem sterkast að því öllu og eftir því vil ég vinna.